138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

uppbygging dreifnáms og fjarnáms.

139. mál
[15:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er óumdeilt að mjög margt hefur verið vel gert í menntamálum okkar á síðustu árum og okkur hefur tekist að stórauka framlög til þessa málaflokks sem betur fer. Eitt af því sem hefur tekist hvað best til að mínu mati er einmitt uppbygging dreif- og fjarnáms sem hefur haft gríðarlega þýðingu. Hæstv. ráðherra benti á að hlutur kvenna væri til að mynda hlutfallslega mikill í þessu námi. Ég vil sérstaklega beina athyglinni að hlut landsbyggðarinnar í þessum efnum. Það fer ekkert á milli mála að aukning fjarnámsins og dreifnámsins hefur opnað alveg nýja möguleika fyrir fólk á landsbyggðinni, það hefur m.a. gert það að verkum að við höfum verið að takast á við það vandamál sem við höfum verið að glíma við, sem er meira brottfall meðal þeirra ungmenna sem hafa þurft að fara um langan veg til þess að stunda nám.

Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til þess að snúa við af þeirri braut sem núna er verið að feta og hvika ekki frá því að efla þetta nám. Það er hugsanlegt að við þurfum að takast á við niðurskurð og því gerum við okkur grein fyrir en það má ekki verða til þess að skapa ójafnrétti (Forseti hringir.) til náms eins og getur gerst ef við skerðum of mikið framlögin til fjarnámsins og dreifnámsins.