138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

námslán fyrir skólagjöldum í erlendum háskólum.

224. mál
[15:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Anna Pála Sverrisdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um námslán fyrir skólagjöldum í erlendum háskólum. Mig langar að fylgja þessari fyrirspurn úr hlaði með því að viðra þá skoðun mína að gríðarlega mikilvægt sé að á leið okkar út úr efnahagskreppunni leggjum við alla áherslu á aðgengi að menntun, gæði menntunar og framboð. Í því samhengi hef ég sérstaklega áhyggjur af því að það ríki nokkur óvissa eins og stendur um aðgengi að námi erlendis vegna námslána fyrir skólagjöldum í erlenda háskóla. Ég veit að SÍNE, Samband íslenskra námsmanna erlendis, hefur áhyggjur af þessu og fyrst ég nefni þau samtök má rifja upp að fulltrúi þeirra í stjórn lánasjóðsins sagði sig úr stjórninni þegar reglur lánasjóðsins voru endurskoðaðar í sumar.

Svo ég vindi mér í fyrirspurnina, sem er nokkuð löng, þá spyr ég:

1. Mega íslenskir námsmenn sem stunda eða hyggja á grunn- og framhaldsnám erlendis búast við að sett verði þak eða aðrar takmarkanir á námslán til greiðslu skólagjalda erlendis, samanber gildandi reglur LÍN þar sem segir að frá og með skólaárinu 2010–2011 verði, með leyfi frú forseta, „sjálfsfjármögnun lánþega allt að 30% af lánshæfum skólagjöldum“?

2. Ef svo verður, hefur ráðherra skoðun á því hvernig slíkt yrði gert? Eiga sömu reglur að gilda um grunn- og framhaldsnám og íslenska og erlenda skóla?

3. Hvenær mega námsmenn búast við að reglur um skólagjaldalán liggi fyrir, en nú eru umsóknarfrestir fyrir nám erlendis sumir hverjir liðnir og margir fram undan?

Útlánareglur LÍN liggja oftast ekki fyrir fyrr en u.þ.b. í maí eða júní og það er afar seint í rassinn gripið ef fólk á þá að fá að vita hvernig námslánum fyrir greiðslu skólagjalda erlendis verður háttað. Kannski blasir við að maður geti ekki planlagt sig á þeim forsendum fyrir nám erlendis strax næsta vetur. Ég bíð spennt eftir svörum frá hæstv. ráðherra um þetta mál.