138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

fornleifarannsóknir og menningartengd ferðaþjónusta í Mosfellsdal.

235. mál
[15:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Við ræðum oft menningararfinn og söguna og okkur finnst það skipta máli. Á þeim tímum sem við nú búum við er kannski ekki síður mikilvægt að huga að þeim þætti eins og að horfa til efnahagslegrar stöðu þjóðarinnar og hvað gera skal í þeim málum.

Fornleifarannsóknir hafa staðið yfir á alþingisreitnum og margt mikilsverðra minja komið fram. Fornleifarannsóknir hafa staðið yfir í Mosfellsdal samfleytt frá árinu 1995 þegar tveir bandarískir prófessorar, Jesse Byock og Phillip Walker, hófu rannsóknir á víkingaminjum í Mosfellsdal. Síðan þá hafa þeir í samvinnu við fornleifafræðinga og aðra vísindamenn víðs vegar að úr heiminum unnið að uppgrefti með styrk og stuðningi, aðallega frá erlendum háskólum en einnig frá Þjóðminjasafninu, Mosfellsbæ, menntamálaráðuneytinu og ýmsum einkaaðilum. Niðurstöður verkefnisins hafa vakið mikla athygli. Þar er að finna skála frá víkingaöld, þar er að finna stafkirkju, menn finna tengsl við skipulag í Leirvogi og menningarminjar frá mörkum kristni og heiðni. Líklegt er að hópurinn finni aðrar minjar sem varpa munu ljósi á og sýna fram á mjög merkilegt samfellt landslag víkingaminja. Þetta er merkilegt m.a. fyrir þá sem leggja stund á miðaldasögu.

Þetta verkefni hefur staðið að mörgu leyti sér. Menntamálaráðuneytið lagði til verkefnisins á árunum 2006–2009 32 millj. kr. eða 8 millj. kr. á ári. Slíkur samningur er ekki lengur fyrir hendi og þetta verkefni hefur ekki sótt inn á svokallaða safnliði eins og svo mörg önnur verkefni þessu tengd, eins og t.d. Gásar. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sem ég veit að þekkir verkefnið, hvort hún telji að með einhverjum hætti sé hægt að veita fornleifarannsóknum í Mosfellsbæ frekari stuðning. Í ljósi þess að í fjárlögum þessa árs hefur menntamálaráðuneytið tekið yfir hús skáldsins að Gljúfrasteini vil ég einnig spyrja hvernig og hvort hæstv. ráðherra sjái að tengja megi þetta tvennt, fornleifarannsóknirnar í Mosfellsdal og hús skáldsins að Gljúfrasteini, í þágu menningartengdrar ferðaþjónustu. Ef hæstv. ráðherra sér á því einhvern flöt, þá hvernig?