138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

fornleifarannsóknir og menningartengd ferðaþjónusta í Mosfellsdal.

235. mál
[15:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Við getum verið sammála um að þetta verkefni er stórmerkilegt á mörgum sviðum. Mér gafst tækifæri til að fara og skoða minjarnar á dögunum og það liggur fyrir að þarna er um afar spennandi minjar að ræða.

Eins og hv. þingmaður kom inn á hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkt fornleifarannsóknirnar í Mosfellsdal með margvíslegum hætti, raunar allt frá árinu 1995. Þá voru veittir minni háttar styrkir fyrir gistikostnaði og útveguð nauðsynleg tæki til uppgraftarins. Síðar voru veittir smærri styrkir, umsjónarmönnum verkefnisins bent á að sækja um í Kristnihátíðarsjóð og fornleifasjóð og síðan var gerður umræddur samningur beinlínis milli ráðuneytis og Mosfellsbæjar. Ég hef ákveðið að veita 2 millj. kr. á yfirstandandi ári til verkefnisins af fræðahlið ráðuneytisins en við eigum ekki von á að um frekari bein fjárframlög verði að ræða. Hins vegar munum við funda með fulltrúum verkefnisins og teljum að það eigi fullt erindi til að sækja um styrki í rannsóknasjóð RANNÍS eða fornleifasjóð þar sem þarna eru augljóslega merkir hlutir sem kalla ekki síst á fræðilega úrvinnslu sem kannski ætti best heima innan rannsóknasjóða eða annars slíks.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þingmanns um Gljúfrastein og tengingu við fornleifarannsóknir og menningartengda ferðaþjónustu þá hefur ábyrgð á rekstri og málefnum Gljúfrasteins frá 1. október verið flutt frá forsætisráðuneytinu yfir til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Ég tel sjálfsagt að viðræður verði hafnar milli stofnunarinnar og Mosfellsbæjar um hvernig hún geti tengst hugmyndum heimamanna um menningartengda ferðaþjónustu. Þessar merkilegu fornleifarannsóknir að Hrísbrú og niðurstöður þeirra eru eðlilegur þáttur í útfærslu á slíkri ferðaþjónustu. Þó vil ég minna á að ferðaþjónustan sem slík heyrir ekki undir mennta- og menningarmálaráðuneyti heldur iðnaðarráðuneyti en þar sem þarna er um menningarminjar að ræða tel ég eðlilegt að við hvetjum til að slíkar viðræður geti átt sér stað. Ég sé í anda að þarna væri hægt að byggja upp menningartengda ferðaþjónustu bæði í kringum Gljúfrastein og fornminjarnar en hvernig því er háttað er líklega best að sé skipulagt og unnið af heimamönnum. Við lítum það auðvitað jákvæðum augum.