138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

listnám í grunn- og framhaldsskólum.

236. mál
[15:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um könnun og kortlagningu listnáms eða listfræðslu í skólum landsins.

Okkur er tíðrætt um að listir skipti máli og að listnám skipti máli. Það er alveg ljóst að í skólum landsins er því misjafnlega farið hvernig því er háttað. Oftar en ekki eru listir og listgreinar tengdar saman. Þær styðja hver aðra í ýmsum þemaverkefnum og uppákomum í skólanum, í leiksýningum og öðru þess háttar og það er vel. Slíkt starf hefur ómetanlegt gildi fyrir nemendur og það er líka viðurkennt að listir sem áhugamál hafa ótvírætt forvarnagildi. Ef tekst í skólum, leikskólum og grunnskólum að glæða áhuga nemenda á listnámi vita flestir að það er ávinningur fyrir nemandann, fyrir einstaklinginn og samfélagið.

Það er líka alkunna að nemendur sem finna sig í listnámi og liststarfi og nemendur sem finna sig í t.d. íþróttastarfi eru oftar en ekki betur skipulagðir í hefðbundnu námi sínu innan skólans. Það hefur ekki verið kannað eða rannsakað hvers vegna en það er hins vegar.

Mér er kunnugt um að vegna mikils áhuga og elju tveggja einstaklinga, Sigrúnar Grendal, formanns Félags tónlistarkennara, og Árna Sigurbjarnarsonar, skólastjóra Tónlistarskólans á Húsavík, og tengsla þeirra við fagfélög á Norðurlöndum, hafa þau sýnt mikinn áhuga og staðið fyrir að kortleggja þyrfti listnámsfræðslu á landinu, við menntamálaráðuneytið hafi verið rætt og til þess hafi m.a. verið fengin þekktur sérfræðingur, Anne Bamford, sem unnið hefur slíkar skýrslur og slík verkefni fyrir aðrar þjóðir. Mig langar því að spyrja hæstv. menntamálaráðherra:

1. Er lokið könnun og kortlagningu listnáms í grunn- og framhaldsskólum og ef svo er, hefur skýrsla þar að lútandi verið unnin og kynnt formlega?

2. Er ætlun ráðuneytisins að vinna frekar með fengnar niðurstöður og þá hvernig?