138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

listnám í grunn- og framhaldsskólum.

236. mál
[15:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa athyglisverðu fyrirspurn. Það er rétt að haustið 2008 var ákveðið að gera úttekt á listmenntun og menningarfræðslu hérlendis, ekki síst út af því sem hv. þingmaður nefndi að listmenntun er auðvitað mjög mikilvægur hluti almennrar menntunar og umfangsmikil listfræðsla fer enn fremur fram í tónlistarskólum, dansskólum og myndlistarskólum um land allt fyrir utan einmitt þennan hluta sem listfræðslan á í hinu almenna skólakerfi.

Árið 2006 gaf UNESCO út niðurstöðu frá heimsráðstefnu um listmenntun undir heitinu Vegvísir fyrir listfræðslu og árið 2006 voru einnig birtar niðurstöður úttektar á listmenntun í 60 löndum sem téður prófessor, Anne Bamford, var fengin til að stýra fyrir hönd UNESCO og fleiri aðila en Bamford er forstöðumaður The engine Room, Wimbledon School of Art í London. Bókin vakti umtalsverða athygli, hún hét The Wow Factor: Global research compendium on the impact of the arts in education. — Ég biðst afsökunar, ég held ég megi ekki segja þetta á ensku en þetta er sem sagt alþjóðleg rannsókn á áhrifum lista á menntun. Hún fjallar um menntun í listgreinum og einnig um menntun með hjálp lista.

Í kjölfarið á útkomu bókarinnar hafa ýmsar þjóðir fengið Bamford til sín til að kynna bókina og Íslendingar, þ.e. mennta- og menningarmálaráðuneytið fengu hana til að leiða úttekt á umfangi og gæðum list- og menningarfræðslu á Íslandi. Við úttektina voru lagðar til grundvallar eftirfarandi spurningar. Hvað er gert í listfræðslu og hvernig? Hver eru gæði listfræðslu á Íslandi, er hún góð? Hvaða möguleikar liggja í listfræðslunni núna og í framtíðinni og hverjar eru helstu áskoranir eða hættur?

Bamford hóf formlega störf í október 2008 með því að heimsækja skóla og stofnanir og taka viðtöl við starfsmenn og sérfræðinga á sviði lista og listfræðslu. Auk þess söfnuðu starfsmenn ráðuneytis upplýsingum og gögnum frá skólum með spurningaskrá. Gagnaöflun tók sex mánuði og beitt var bæði eigindlegum og megindlegum aðferðum og horft var til framboðs á list- og menningarfræðslu, bæði í formlega og óformlega skólakerfinu, þ.e. list- og menningarfræðslu innan skóla sem utan, svo sem tónlistarnáms og margs konar listnáms, fræðslu og náms á vegum safna og leikhópa. Rannsóknin tók einnig til leikskólaaldurs og til þess sem er í boði fyrir börn með sérþarfir. Framkvæmd skólastarfs var könnuð og aðgengi að námi auk þess sem horft var til kennaramenntunar og þeirra möguleika sem kennarar og listamenn hafa til endur- og símenntunar. Að auki var litið til hlutverks og framlags skapandi list- og menningargreina í ljósi nýlegra hræringa í efnahagslegu og pólitísku umhverfi á Íslandi. Rætt var við 214 manns og 47 skólar í 11 sveitarfélögum heimsóttir. Spurningaskrá var send öllum skólum sem vitað er að veita ungu fólki listmenntun. Skrár voru sendar í alla leikskóla, alla grunnskóla, alla almenna framhaldsskóla, listaskóla, dansskóla og tónlistarskóla, alls 551 skrá. Svör bárust frá 76,3% skólanna.

Anne Bamford hefur nú skilað skýrslu. Hún var kynnt og helstu niðurstöður af alþjóðlegri ráðstefnu sem bar heitið Sköpunarkraftur ungs fólks og var haldin 2.–4. desember sl. Nú er unnið að þýðingu skýrslunnar á íslensku og hún verður formlega útgefin í upphafi nýs árs og ætti þar með að verða öllum aðgengileg. Einnig er verið að vinna tölfræðilegar upplýsingar upp úr spurningalistunum sem voru sendir í skólana og verða niðurstöður þeirrar vinnu gefnar út samhliða skýrslunni.

Úttektinni sem nú er að ljúka hefur öðrum þræði — af því að hv. þingmaður spyr hvort ætlunin sé að nýta þetta eitthvað áfram — þann tilgang að byggja skipulega undir stefnumótun um listmenntun og endurskoðun á aðalnámskrám listgreina fyrir leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, fullorðinsfræðslu og listaskóla. Almennt þarf að styrkja stöðu og hlutverk skapandi starfs í skólakerfinu öllu. Það sem segja má er að margt kom mjög jákvætt út úr þessari úttekt, margt er mjög vel gert í listgreinakennslu á Íslandi, gott aðgengi og fleira. Hins vegar er ýmislegt sem má betur fara og þarna fáum við bæði vísbendingar um hvað við gerum vel og líka hvað megi betur fara. Það birtist t.d. í því hvernig við greinum þau listaverk sem eru unnin, hvernig nemendur segja frá og vinna úr þeirri sköpun sem þeir stunda og margt fleira sem ég held að eigi eftir að nýtast mjög vel.

Unnin verður að stefnumótun og þróunarvinnu á sviði listmenntunar og menningarfræðslu á grundvelli skýrslunnar og huga verður að endurskoðun laga um tónlistarskóla og hugsanlega heildarlöggjöf um listmenntun. Í skýrslunni er hvatt til þess að sérstaklega verði hugað að menntun og endurmenntun listgreinakennara, þróunarstarfi í skólum og námsgagnagerð. Ástæða er til að hlúa betur að list- og verknámi á framhaldsskólastigi þannig að það verði eðlilegur hluti af almennu námi til stúdentsprófs. Í samstarfi við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands er nú stefnt að málþingi vorið 2010 um listmenntun, einkum um tengsl menntakerfis og menningarstefnu um starfsmenntun listgreinakennara. Þá verður á nýju ári hafist handa við endurskoðun aðalnámskrár í listgreinum á öllum skólastigum og í listnámi í fullorðinsfræðslu og listaskólum. (Forseti hringir.)

Ég mun koma nánar að þessu í seinna svari mínu.