138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

vaxtabætur.

234. mál
[15:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra. Í bankahruninu svokallaða þegar efnahagslíf þjóðarinnar fór á annan endann misstu margir vinnu og oft voru það iðnaðarmenn sem staðið höfðu í miklum byggingarframkvæmdum hvort heldur á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar. Fólk var hvatt til að líta sér nær, fólk var hvatt til þess, m.a. af Reykjavíkurborg, að fara í endurbætur á húsnæði og fleiri sveitarfélög gerðu slíkt hið sama. Margir fóru í þetta verkefni en svo hefur komið í ljós, frú forseti, og það er þess vegna sem ég beini fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra, að fólk sem taldi sig eiga rétt á vaxtabótum leitaði fyrst til Íbúðalánasjóðs en það fékk ekki lán vegna þess að fyrst þurfti að framkvæma og síðan að sækja um lánið. Margir töldu að það væri of kostnaðarsamt og sneru sér því til síns banka eða lífeyrissjóðs og sóttu um lán og töldu sig síðan eiga rétt á vaxtabótum. En þegar kom að því var ljóst að svo var ekki vegna þess að þeir einir eiga rétt á vaxtabótum vegna endurbóta á eigin húsnæði sem fengið hafa lán frá Íbúðalánasjóði sem samt sem áður lánar ekki fyrr en verkefninu er lokið. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra í ljósi þess að við erum að breyta ýmsu og við erum að auka við vaxtabæturnar: Telur ráðherra að breyta mætti ákvæði b-liðar 68. gr. um tekjuskatt, nr. 90/2009, um lán til endurbóta á húsnæði, að það sé eingöngu tekið hjá Íbúðalánasjóði, hvort hægt sé að breyta því þannig að það sé frá öðrum lánastofnunum líka af því ég að tel þetta ekki vera til hagsbóta fyrir fólkið í landinu?

Ég sé hins vegar að seinni liður fyrirspurnar minnar á kannski ekki beint við í þessu vegna þess að fólk vill sjálft sækja til sinna lánastofnana, og hvort jafnræði ríki á milli lánastofnana á í sjálfu sér ekki við í þessari fyrirspurn. En ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji að b-liður 68. gr. sé í raun og veru til hagsbóta fyrir fólkið í landinu og hvort það sé möguleiki á að skoða það, þannig að réttlæti ríki fyrir þá sem þurfa á því að halda að sækja sér lán vegna endurbóta á eigin húsnæði og óska síðan eftir vaxtabótum af því að það telur sig eiga rétt á þeim.