138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að öllum megi vera ljóst að víða hefur verið leitað fanga í niðurskurði og samdrætti á útgjöldum ríkisins. Verið er að skera niður jafnt í útgjöldum sem og tilfærslum og verið er að hækka skatta. Ég tók það fram í nefndaráliti að við í meiri hluta nefndarinnar teljum að ekki hafi verið lengra gengið með fæðingarorlofskerfið en jafnframt að þetta hafi verið ríkulegasta tryggingakerfið okkar og því eðlilegra að skerða þar umfram önnur kerfi.

Mér finnst athyglisvert í ljósi þeirrar atkvæðagreiðslu sem fór fram í dag eftir 2. umr. á frumvarpi um hlutafélög, þar sem verið var að greiða atkvæði um breytingartillögu um kynjakvóta í fyrirtæki, að hv. þm. Pétri Blöndal, sem er svo umhugað um jafnrétti í hærri launum, skuli hafa dottið í hug að greiða atkvæði gegn þeirri breytingartillögu sem beinlínis stuðlar að jafnrétti hátekjufólks sem og lágtekjufólks.