138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fél.- og trn. (Guðmundur Steingrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel augljóslega skynsamlegt að falla frá 16. gr. Ein röksemd fyrir því að falla frá þessari skerðingu í Fæðingarorlofssjóð er auðvitað sú að hún leysir í raun og veru engan vanda. Okkur er að verða ljóst að við höfum ekki tryggt fjármögnun kerfisins eins og við viljum væntanlega hafa það. Ég mundi frekar vilja bæta í þetta kerfi með tíð og tíma og lengja fæðingarorlofið og hækka þakið á hámarksgreiðslum aftur eitthvað vegna þess að ég tel 350 þús. kr. þak of lágt. Með þessi markmið í huga fer þetta vandamál náttúrlega ekkert. Við verðum að takast á við fjármögnun sjóðsins, við getum ekki endalaust skorið niður í hann. Ég held að það sé samfélagsleg sátt á Íslandi um að hafa öflugan Fæðingarorlofssjóð sem tryggir fólk sem eignast börn og þarf tímabundið að fara af vinnumarkaði. Þetta er samfélagslegt verkefni og við eigum að nýta okkur þessa sátt til að fara í það af einurð og festu að tryggja fjármögnun sjóðsins. Það er verkefnið sem er fyrirliggjandi en ekki að halda áfram endalaust á þeirri vegferð að skera niður hvað eftir annað til sjóðsins. Það er enginn tími betri en núna til þess að hætta þeim leikaraskap.