138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

fundarstjórn.

[20:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Rétt í þessu var meiri hluti hv. viðskiptanefndar að rífa út álit sem við áttum að ræða og koma frá okkur. Ég hélt að hugmyndin hafi verið sú með því samkomulagi sem stjórnarandstaðan gerði við stjórnarmeirihlutann að menn mundu vinna þá hluti almennilega, faglega og vandað, en grímulaust, virðulegi forseti, kom meiri hluti viðskiptanefndar fram og útskýrði fyrir minni hlutanum að ekki stæði til að eyða neinum tíma í þetta. Við fengum að sjá blað á fundinum, virðulegi forseti, og við getum orðað það þannig að ekki var vel tekið í það að menn ræddu þessi mál efnislega. (Gripið fram í.) Ég hélt, virðulegi forseti, að menn hefðu af fullum heilindum náð hér samkomulagi um það hvernig vinna ætti þetta Icesave-mál, (Forseti hringir.) en vinnubrögðin í hv. viðskiptanefnd eru að a.m.k. þannig að sá hluti stjórnarliðsins sem þar er gerir það ekki með þeim hætti.