138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

fundarstjórn.

[20:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta eru ill tíðindi sem okkur eru að berast. Þannig var að gert var samkomulag um afgreiðslu Icesave þar sem leitað yrði eftir skynsamlegum umsögnum til að gera mönnum auðveldara um vik að greiða atkvæði um þetta stóra mál. Eitt af því var t.d. áhættumat eða áhættugreining, hvaða áhætta felst í þessu þannig að þingmenn viti yfirleitt hvað þeir eru að greiða atkvæði um.

Nú kemur í ljós það sem maður hafði reyndar fundið áður að samkomulagið var að hökta hingað og þangað en maður trúði því ekki að það væri ekki meiningin að standa við það og nú kemur í ljós að alla vega í einni nefnd höfðu menn ekki staðið við þetta samkomulag. Ég held að það sé mjög alvarlegt fyrir stöðu þingsins og stjórn þingsins vegna þess að við höfum verið að vinna mjög hratt, frú forseti, í mjög mörgum málum á ótrúlega skömmum tíma. Menn eru að vinna að nefndarálitum (Forseti hringir.) samtímis því sem þeir sitja á fundum. Mér finnst þetta mjög slæm tíðindi.