138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

fundarstjórn.

[20:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég sat þennan fund hjá viðskiptanefnd sem verið er að ræða hér um. Ég tel þetta ekki vera í samræmi við það samkomulag sem gert var á milli stjórnarandstöðu og forseta og síðan kom formaður fjárlaganefndar hér upp og lýsti því yfir að hann mundi standa við það.

Það verkefni sem viðskiptanefnd fékk var að leggja mat á það hver fjárskuldbinding samningsins væri og hvernig greiðslum úr þrotabúinu yrði háttað. Þetta er sá þáttur, fyrir utan það ef neyðarlögin standast ekki, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að sé einn stærsti einstaki áhættuþátturinn varðandi Icesave. Við erum komin með upplýsingar um þá fjármuni sem þrotabúið telur sig hafa til ráðstöfunar, það liggur líka fyrir að þrotabúið mun ekki greiða neitt út fyrr en eftir eitt og hálft til tvö ár og þá ætti náttúrlega að vera hægt fyrir okkur að reikna út sirka hvernig (Forseti hringir.) greiðslum út úr þrotabúinu verður háttað og hversu mikil fjárskuldbindingin verður. Það er engin tilraun (Forseti hringir.) gerð til þess í þessu nefndaráliti hjá meiri hlutanum. Málið var tekið út úr nefnd (Forseti hringir.) þrátt fyrir mikil mótmæli minni hlutans (Forseti hringir.) og þrátt fyrir ábendingar um að þarna væri verið að brjóta samkomulag við stjórnarandstöðuna.