138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

fundarstjórn.

[20:09]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Það samkomulag sem gert var milli stjórnar og stjórnarandstöðu um meðferð á Icesave-málinu fyrir viku eða tíu dögum eða hvenær sem það var hefur verið í heiðri haft. Það hefur verið staðið við hvert einasta atriði af þeim kröfum sem stjórnarandstaðan gerði. Þeim 16 spurningum sem stjórnarandstaðan óskaði eftir að yrði fylgt hefur verið beint til nefnda, til fjárlaganefndar, til viðskiptanefndar, efnahags- og skattanefndar og utanríkismálanefndar og nefndunum gefinn frestur til dagsins í dag til að skila þeim álitum og ég veit ekki betur en nefndirnar séu að vinna ágætlega í því.