138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[20:56]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka nefndinni fyrir góða vinnu. Hún hafði stuttan tíma og lítið ráðrúm til að fara yfir málið en mér finnst vinna hennar hafa verið með miklum ágætum og það er þakkarvert.

Ég sagði í 1. umr. þegar ég fjallaði um þá stöðu sem uppi var varðandi þörf á samdrætti í fæðingarorlofi að réttast væri að nefndin kannaði vandlega þá kosti sem í boði væru. Ég gat þess hver mín hugmynd hefði verið en líka að niðurstaðan sem var í frumvarpinu hefði verið sú niðurstaða sem hefði átt ríkari hljómgrunn í ríkisstjórn.

Nú kann svo að vera að mönnum finnist það ankannaleg vinnubrögð og undarleg vinnubrögð að leggja fram frumvarp og hvetja þingnefnd sérstaklega til að finna út úr málum og leggja sjálfstætt mat á mál en ég tel það satt að segja fremur til vitnis um jákvæð og uppbyggileg vinnubrögð. Hér er nokkuð talað um eins og að þessu máli, um niðurskurð í fæðingarorlofi, hafi með einhverjum hætti snjóað inn í samfélagið eða inn í þingið. Svo er auðvitað ekki. Ég vil minna menn á að ég mætti á fund í félags- og tryggingamálanefnd í byrjun nóvember og fjallaði þar um verkefnin fram undan og m.a. þá staðreynd að gert væri ráð fyrir 1.200 millj. sparnaði í fæðingarorlofi og þar rakti ég þau sjónarmið sem við værum að vinna með í ráðuneytinu. Það var alltaf gert algerlega yfir opnum tjöldum. Margsinnis voru viðtöl við mig í fjölmiðlum um þau sjónarmið sem við vorum að vinna með, sem voru annars vegar hlutföllin, hvort hlutfallið ætti að vera 80% eða eitthvað lægra, og hins vegar hvort lækka ætti hámarksfjárhæðina. Við ræddum þetta líka ítarlega við aðila vinnumarkaðarins og tókum á því marga hringi. Það er því ekki svo að þessu máli hafi með einhverjum hætti snjóað inn í samfélagið. Þetta mál var alltaf rætt opinskátt af minni hálfu og ég tel einfaldlega að nefndin hafi sýnt í vinnu sinni núna að það er mikils virði að virða þessi lýðræðislegu vinnubrögð. Sum mál eru ekki þannig að þau fæðist fullsköpuð í mínu höfði frekar en einhverra annarra. Auðvitað má alltaf deila um alla niðurstöðu sem fæst, sérstaklega í flóknu máli eins og þessu þar sem við niðurskurðinn var tekist á um þrjú nokkurn veginn jafnmikilvæg sjónarmið. Og það var mikilvægt að nefndin fengi að leggja á þetta sjálfstætt mat. Ég minnist í 1. umr. orðaskipta milli hv. þingmanna Þorgerðar K. Gunnarsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar sem sannfærðu mig algerlega um að það var langskynsamlegast að fela nefndinni að fara yfir málið og ræða hin ólíku sjónarmið því að fæðingarorlofið er auðvitað sameign okkar allra.

Hér hefur aðeins verið gagnrýndur niðurskurður og spurt hvort það sé ekki forgangsröðun í niðurskurði af hálfu núverandi ríkisstjórnar. Jú, það er það náttúrlega. Þess vegna fara menn svolítið villur vegar eins og vinir mínir í Alþýðusambandinu þegar þeir kalla eftir skýringu á því af hverju skorið er niður í fæðingarorlofi og vitna til þess að talað hafi verið um að ekki ætti að skera niður nema 5% í velferðarþjónustu. Við ætluðum aldrei að skera flatt 5% niður í velferðarþjónustu, við erum að forgangsraða í niðurskurðinum þar. Í niðurskurði af hálfu þessarar ríkisstjórnar og í félags- og tryggingamálaráðuneytinu hefur þeim verið hlíft sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér, og hafa þeir lífeyrisþegar sem reiða sig alfarið á bætur almannatrygginga til framfærslu ekki verið snertir. Hækkun þeirra upp á 42% frá árinu 2007 hefur ekki verið skert um eina einustu krónu. (PHB: Var ekki Sjálfstæðisflokkurinn þá?) ekki eina einustu krónu. Jú, okkur tókst að troða því ofan í kokið á Sjálfstæðisflokknum, það er alveg rétt og gott af hv. þm. Pétri H. Blöndal að minna á það. En við höfum líka átt í stríði við Sjálfstæðisflokkinn um ýmsa þætti. Hann var t.d. alveg tilbúinn, frekar en að skerða hámarksfjárhæðina í fæðingarorlofinu í lok síðasta árs, til í að taka launahlutföllin niður í 60%. Hvað hefði það gert fyrir einstæðar mæður, fyrir lágtekjufólk í landinu sem reiðir sig auðvitað líka á fæðingarorlofið sem brú til framfærslu meðan börn eru lítil? Þetta er nefnilega ekki bara jafnréttistæki, þetta eru líka framfærslutæki og það verður líka að gæta að því að fæðingarorlofið sé raunverulega til þess fallið að skapa fólki möguleika til framfærslu á þeim tíma sem börnin eru lítil. Forgangsröðunin er skýr. Við höfum líka forgangsraðað með þeim hætti að við höfum ekki skorið neitt niður í málaflokki fatlaðra á þessu ári og við hlífum honum á næsta ári, þannig að þar verður einungis skorið niður um 3,3%. Allt tal um 5% niðurskurðarkröfu annars staðar stenst ekki því að við erum að forgangsraða. Við ætlum ekki að skera niður eins og menn hafa alltaf gert hingað til, skera niður flatt þannig að ekki sé forgangsraðað. Tekin var meðvituð ákvörðun um að gera það ekki. Við hlífðum hámarksfjárhæð atvinnuleysisbóta og erum að verja atvinnuleysisbæturnar á þessum erfiða tíma þegar fleiri og fleiri fara á atvinnuleysisbætur, vegna þess að við erum alltaf að forgangsraða.

Virðulegi forseti. Ég held að sú niðurstaða sem nefndin hefur komist að í fæðingarorlofinu sé skynsamleg og ég styð hana heils hugar, tel að hún sé langbesta lausnin. Hún er vissulega gagnrýnisverð út frá því hvort hún sé sérstaklega neikvæð fyrir þátttöku karla í orlofinu, hvort þeir taki orlofið. En ég verð hins vegar að segja að allar aðrar leiðir sem mér hefur tekist að hugsa upp og sem ég hef heyrt eru ekki til muna betri að því leyti. Ég tók eftir því að Jafnréttisráð gagnrýndi sérstaklega hugmyndina um frestun eins mánaðar og ég hef satt að segja ekki orðið var við að menn hafi haldið þeirri aðferð mikið fram út frá kynjasjónarmiðsaðferðafræðinni því að á henni voru það margir aðrir gallar. Ég fagna þeirri málaleitan sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að gerð verði úttekt á fæðingarorlofinu og áhrif niðurskurðarins á það. Við erum auðvitað að spara þar dálítið vel núna með því að taka hámarksfjárhæðina niður í þriðja skiptið á einu ári. Á móti má líka segja að meðallaun hafa verið að lækka mjög verulega á sama tíma.

Spurt var í umræðunni hvort karlar væru hættir að taka fæðingarorlof. Við sjáum ekki merki þess en vissulega sjáum við merki þess á seinni hluta þessa árs að til muna færri karlar taka langt samfellt fæðingarorlof og það þykir mér mjög miður. Á fyrri hluta þessa árs tóku 25% karla orlof í þrjá mánuði eða lengur samfleytt en þessi fjöldi er kominn niður í einungis 15% á seinni hluta ársins. Margt kann að valda. Það er örugglega ljóst að karlar sem voru veikir fyrir á vinnumarkaði og voru við það að missa vinnuna nýttu sér kannski til fulls réttinn í fæðingarorlofi fyrst. Það er líka spurning hvort síendurteknar yfirlýsingar forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins um að besta leiðin í fæðingarorlofssparnaði væri einfaldlega að taka réttinn af körlunum valdi því að karlar veigri sér við að taka orlofið vegna þess að þeir óttist um stöðu sína á vinnumarkaði. Það er líka umhugsunarefni hvort óvissan sé almennt ráðandi í þessu.

Ég held ekki að við getum endilega sett fingurinn á hámarksfjárhæðina eina og við höfum ekki gögn til að meta það. Ég held hins vegar að það sé alveg hárrétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal rakti svo ágætlega í máli sínu áðan, að grundvallarhugmyndin að baki fæðingarorlofinu væri að gera alla starfsmenn, óháð kyni, jafndýra fyrir atvinnurekendur og gera óvissuna um fjarvistir frá vinnu jafnmikla hvort sem karlar eða konur ættu í hlut. Ég held þess vegna að við þurfum í framhaldinu að endurmeta það aðeins hvort við eigum ekki að binda réttinn hjá körlum í ríkari mæli við samfellda töku, því að konur geta að sjálfsögðu ekki valið um það af líffræðilegum forsendum hvort þær taki réttinn í tvær vikur eða þrjár, þær eru mjög bundnar í lengri fjarveru fyrst eftir barnsburð. Það er umhugsunarefni, finnst mér, að hugsa málið upp á nýtt þannig að karlar þurfi að taka einn eða tvo mánuði samfellt af þessum þremur mánuðum. Þannig öðlist þeir líka þá djúpu tilfinningu sem ég veit að við höfum upplifað sem höfum einhvern tíma verið heima og séð um heimilishald í einhvern tíma, að það eru mikil viðbrigði fyrir karlmann að gera það og verða höfuð heimilisins inni á heimilinu og bera fulla ábyrgð um ákveðið skeið á barnauppeldi. Það er mikil lífsreynsla og ég held að það sé mjög hollt því að þá fyrst náum við þessu grundvallarmarkmiði að óvissan sé jafnmikil um fjarvistir.

Ég tel að við eigum að meta þetta áfram. Ég held að núverandi útfærsla sé til muna betri lausn fyrir einstæða foreldra, lágtekjufólk, en sú hugmynd sem lögð var fram í upphaflega frumvarpinu. Ég held að hlutföllin um 75–80% sé skynsamleg leið, þ.e. að verja 80% af laununum hjá þeim lægst launuðu. Ég mundi ekki treysta mér að mæla með því að fara miklu neðar en það. Ég held að mikilvægt sé að verja það og að lágtekjufólk verði fyrir sem minnstu áfalli við framfærslu fjölskyldu sinnar í fæðingar- og foreldraorlofi. En hinu er ekki heldur að neita að launamunurinn og auðvitað líka fjöldi hlutastarfa er með þeim hætti að þessi breyting, þ.e. að 80% gildi áfram fyrir þá sem eru undir 200 þúsund í staðinn fyrir að 75% hlutfall sé látið ganga niður allan skalann, gagnast 7% karla sem taka fæðingarorlof en 36% kvenna.

Hér var aðeins rakið fyrr og gagnrýnt hvort við ættum ekki að fara í hærri gjaldtöku. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom með hugmyndir þar um hvort við ættum ekki að leggja meiri gjöld á. Ég held að menn hafi gert mistök í upphafi með því að fjármagna ekki kerfið. Menn bjuggu til kerfi en þeir fjármögnuðu það ekki og lögðu ekki grunn að því. Þrátt fyrir þetta aðhald núna, þrátt fyrir þennan niðurskurð núna er ríkissjóður samt sem áður að leggja 1.300 millj. kr. með kerfinu. Ef leggja ætti á tryggingagjald til að fullfjármagna kerfið væru það a.m.k. 2.500 millj. og jafnvel meira því að sú hækkun þyrfti að vera ríflegri til að afla tekna til að niðurgreiða kostnaðinn af hækkuðu tryggingagjaldi hjá ríki og sveitarfélögum. Við þessar aðstæður þar sem við erum komin núna upp í toppinn á gjaldtökunni sem við höfum samið um við aðila vinnumarkaðarins, og þar sem við höfum látið atvinnuleysið vera í forgangi þegar við horfum á fjármögnun úr tryggingagjaldinu og erum búin að hækka það eins mikið og raun ber vitni, tel ég ekki réttlætanlegt að ganga lengra á þessu stigi. Ég held hins vegar að við eigum að einhenda okkur í það að búa til áætlun um fjármögnun kerfisins og ná um það þverpólitískri sátt þar sem við leggjum grunninn að því hvernig þetta kerfi verði fjármagnað og hvernig við fáum fjármagn til að bæta síðan í það aftur. Það sem hentar náttúrlega ágætlega hér er að samhliða því sem atvinnuleysið dregst saman skapast auðvitað ákveðið svigrúm í tryggingagjaldinu. Fjárhæðirnar eru blessunarlega það skakkar fæðingarorlofinu í vil að hægt er að gera ansi vel í fæðingarorlofinu fyrir frekar litla minnkun atvinnuleysis. Ég held að við eigum að nýta tækifærið þegar dregur úr atvinnuleysinu, sem vonandi verður eins fljótt og mögulegt er, og bæta þá aftur í í fæðingarorlofinu og sníða af kerfinu þá vankanta sem við höfum verið að ræða hér og gera betur í hækkuðum tekjumörkum.

Að síðustu vildi ég fjalla stuttlega um breytingarnar sem varða byggingu nýrra hjúkrunarheimila og tímabundnar heimildir fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra til að taka þátt í rekstri þeirra. Ég fagna sérstaklega að nefndin hafi verið einhuga um þetta mál og engin andstaða hafi komið fram við það hjá neinum flokki. Ég held að þetta sé óskaplega mikið þjóðþrifamál og mikilvægt að koma þessu af stað sem stað sem allra fyrst, mikilvægt er að hefja þetta byggingarátak núna þegar atvinnustig er slæmt og góðar vonir til þess að hægt sé að koma þessum framkvæmdum af stað á góðu verði. Þetta eru verkefni samkvæmt áætlun upp á 9 milljarða kr. sem byrja að falla til á næsta ári og mikilvægt að koma þeim af stað. Það er mjög gott og ég vil að það komi fram hér, og ráðuneytið átti frumkvæði að þeim breytingum sem gerðar hafa verið í meðförum meiri hluta nefndarinnar á ákvæðunum um lánveitingar til hjúkrunarheimilanna. Við viljum tryggja að við séum ekki að opna möguleika á 100% lánum út fyrir það sem við höfum sagt skýrt hingað til, sem er að þetta séu lán sem veitt eru til sveitarfélaga og að baki liggi leigusamningur við ríkið þannig að grunnurinn sé tryggður. Jafnframt sé tryggt að Íbúðalánasjóður fái fullnægjandi tryggingar fyrir þessum lánveitingum þannig að þessi nýlunda, 100% lán, verði ekki til að rýra útlánasafn Íbúðalánasjóðs eða skaða stöðu hans á nokkurn hátt heldur þvert á móti til þess fallin að styrkja hana þar sem sjóðurinn veiti meiri lán til brýnna samfélagslegra verkefna sem tryggð eru af sveitarfélögum og ríki og þar af leiðandi sé útlánaáhætta sjóðsins af lánunum svo að segja engin.