138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[21:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fél.- og trn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð. Það kom mér reyndar á óvart þegar hann talaði um að nefndin hefði átt að hafa þetta mál til umfjöllunar og gera á því breytingar. Þá vil ég bara vitna í þann skamma tíma sem hér var veittur og það litla svigrúm sem nefndinni er gefið til að vinna í þessu máli. Þetta er nánast enginn tími, það er vika frá því að málið kom til nefndarinnar og umsagnaraðilar fengu um þrjá daga til að veita umsagnir og koma á fund nefndarinnar og gera grein fyrir afstöðu sinni. Það er því ekki hægt að ætlast til þess að nefndin vinni einhver stórvirki á þessum tíma.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra um viðbrögð hans við gagnrýni Alþýðusambands Íslands þar sem segir m.a.:

„Það hefur tíðkast um langt árabil, óháð skipan ríkisstjórna eða hvaða ráðherrar hafa farið með málefni vinnumarkaðarins, að leitað hefur verið eftir samráði við Alþýðusambandið og aðra aðila vinnumarkaðarins um mál er varða sérstaklega réttindamál launafólks og velferðarkerfið á vinnumarkaði.“ — Þar segir einnig: „Af þessari braut var vikið við undirbúning breytinganna nú.“ — Og: „Má segja að hér hafi verið farin sú leið sem norræna vinnumarkaðsmódelið byggir á, þ.e. að leita sátta og semja um niðurstöðuna ef nokkur kostur er.“

Ég vil heyra viðbrögð ráðherrans við þessu og hvað hann vill segja um þessi viðbrögð Alþýðusambands Íslands og þær fullyrðingar sem hafa komið fram frá Alþýðusambandinu, Öryrkjabandalaginu, Samtökum íslenskra sveitarfélaga og öðrum þeim sem komu fyrir nefndina, um að verið væri að brjóta í blað í samskiptum ríkisvaldsins við þessi samtök (Forseti hringir.) launafólks og hagsmunaaðila þegar verið er að fjalla um svo víðtæk mál eins og hér um ræðir.