138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[21:15]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað geta haft lengri tíma fyrir nefndina í þetta mál. Við höfum hins vegar verið í mjög brýnum verkefnum, mjög erfiðum úrlausnarefnum þar sem við höfum verið að takast á við ágalla sem hafa komið upp varðandi framkvæmd atvinnuleysistrygginga um ýmsa þætti sem þurfti að grípa til vegna fjárlagavinnunnar.

Það frumvarp sem hér um ræðir er fyrst og fremst um ákveðin fjárlagaatriði. Ég þekki vel þessa gagnrýni frá Alþýðusambandinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga en ég held að hún lúti frekar að öðru frumvarpi sem við ræðum síðar í kvöld og kannski réttara að fara ítarlegar yfir það. En auðvitað voru öll þau atriði í þessu frumvarpi rædd við aðila vinnumarkaðarins.

Hins vegar þarf ríkisstjórnin að höggva á hnútinn á ákveðnum tímapunkti og við þurfum að leggja fram tillögur. Við gerum það vissulega. Við höfum átt mjög gott samráð við aðila stöðugleikasáttmálans og ég tel að það hafi verið öllum til góðs. Við hefðum gjarnan viljað, eins og ég segi, taka lengri tíma í vinnslu þessara mála allra. En aðstæður leyfa það einfaldlega ekki að drolla endalaust yfir þeim erfiðu málum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Við verðum að taka af skarið í fjölda erfiðra mála. Við þurftum að koma saman fjárlögum. Það er heldur ekki hægt að bera saman þau vinnubrögð að öllu leyti sem við þurfum að tileinka okkur núna þegar mikið brennur á og þau sem gátu tíðkast á þeim tímum þegar smjör draup af hverju strái og samráðið snerist að mestu leyti um hvernig ætti að skipta frekar safaríkri köku.