138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[21:24]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað hefur hámarkið verið lækkað en ég vil samt aðeins biðja fólk um að hafa hlutina í samhengi. Eftir þá breytingu sem lögð er til núna mun Fæðingarorlofssjóður tryggja fólki í foreldraorlofi 75% af 400 þús. kr. launum. Í dag tryggir Fæðingarorlofssjóður 80% af 411 þús. kr. launum. Ég held að við eigum að passa aðeins dómsdagsspár yfir þessari breytingu þegar við setjum hana í þetta samhengi. Við erum ekki að skerða neinn mann um 50 þús. kr. Við erum bara að segja að hámarksgreiðslan úr sjóðnum er 50 þús. kr. lægri. Við munum eftir þessa breytingu tryggja 75% af 400 þús. kr. launum. Áður tryggðum við 80% af 411 þús. kr. Ég held ekki að mjög margir muni taka þá ákvörðun að sinna ekki þátttöku í uppeldi barna og umönnun út af þeirri breytingu einni og sér.

Ég er hins vegar alveg sannfærður um að fjöldamargar aðrar aðstæður á vinnumarkaði muni leiða til þess að feður dragi úr töku orlofs eins og við munum sjá á seinni hluta þessa árs. Þar tel ég margt virka saman, óöryggi á vinnumarkaði, óvissa um framtíðarstöðu í fyrirtæki, sérstaklega þegar forustumenn Samtaka atvinnulífsins koma fram og segja að það eigi nú bara að taka þetta allt saman af köllum, sem ég tel alveg skelfileg skilaboð til ungra feðra. Ég held líka að það sé ýmis önnur óvissa sem geti valdið því að menn, eins og hv. þingmaður nefnir, (Forseti hringir.) horfi í hverja krónu en ég mun koma betur að framtíðinni í seinna andsvari mínu.