138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[21:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur að til stæði að 5. gr. væri óbreytt eins og lagt var til í upprunalegu myndinni og því vil ég spyrja hv. þingmann vegna þess að gerðar hafa verið miklar athugasemdir við þetta frumvarp af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga og sambandið telur að þetta sé kostnaðarauki hjá sveitarfélögum í landinu upp á 2,2 milljarða. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún geri einhverjar athugasemdir við þennan kostnað hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, að verið sé að velta 2,2 milljörðum yfir á sveitarfélögin í landinu. Eins langar mig að spyrja hv. þingmann um það — þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru að verða heldur hefðbundin, það er óðagot og krafs og það virðist ekkert verksvit vera hjá ríkisstjórninni, það er alveg sama hvað hún tekur sér fyrir hendur — að einungis séu gefnir þrír dagar til að gefa álit á frumvarpinu. Telur hv. þingmaður að það sé nægjanlegt og það séu réttlætanleg vinnubrögð vegna þess að það er margsinnis búið að koma upp og síðast í morgun hvernig staðið var að sölu bankanna, að hugsanleg mistök hafi verið gerð þar, hvað finnst hv. þingmanni um það? Hefði ekki þurft að taka lengri tíma í þetta til að átta sig á þessu?

Eins vildi ég líka spyrja hv. þingmann, af því að nú er samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga um að kostnaðarmeta eigi frumvörp sem lögð eru fram á Alþingi, hvaða áhrif þetta hafi á tekjustofna annars vegar sveitarfélaga og hins vegar ríkisins, því að nú er það svo, virðulegi forseti, að ríkisvaldið leggur einfaldlega fram frumvörp sem hrifsa til sín tekjur af sveitarfélögunum, samanber eins og tryggingagjaldið sem er nú þegar búið að taka 2 milljarða af sveitarfélögunum. Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég hef miklar áhyggjur af stöðu sveitarfélaganna í landinu en hæstv. ríkisstjórn virðist ekki hafa það þó svo að það hafi verið í fréttum undanfarna daga hversu alvarlegt ástandið þar er. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Hvers vegna er þetta frumvarp ekki kostnaðarreiknað og staðið við það samkomulag sem er á milli ríkisvaldsins og sveitarstjórna í landinu?