138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[21:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar hefur nefndin fellt út þær breytingar sem eru til kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin að frátalinni breytingunni sem varðar námsmenn, en við tökum undir það álit sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að námsmenn teljist ekki í virkri atvinnuleit en um leið töldum við að búa hefði mátt betur um hnútana varðandi framfærslu.

Nú er það svo að það er í gangi samráðsferli, síðast í gær var fundur með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og segja má að sá kostnaður sem þar er verið að áætla námsmönnum er mun meiri en sá sparnaður sem breytingin er talin valda fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð, og það kom fram á fundum nefndarinnar að það var ekki alveg samstaða um það hvort þetta væru réttar tölur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Það er rétt að við höfðum skamman tíma, enda ákváðum við vegna tímaskorts að taka út greinar sem við töldum ekki nægilega vel rökstuddar eða töldum að kynnu að hafa mun meiri afleiðingar en við gátum farið ofan í saumana á á þessum þremur dögum. En þá vil ég líka segja að í nefndinni á Sjálfstæðisflokkurinn tvo fulltrúa. Annar þeirra, hv. þm. Pétur H. Blöndal, var í efnahags- og skattanefnd á þessum tíma, þar sem undirrituð hefði líka átt að vera en þar var ég inni með varamann, hann kallaði ekki inn varamann, Sjálfstæðisflokkurinn hafði ekki meiri áhuga á málinu en svo að nefndin var ekki mönnuð varamönnum. Mér finnst, þó að við höfum skamman tíma, að ef maður mætir ekki á fundina þá skipti náttúrlega engu máli hvað við höfum langan tíma.