138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[21:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög sérkennilegt svar hjá hv. þingmanni. Ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé sá þingmaður sem síst er hægt að saka um að vinni ekki vinnuna sína á þingi. Ég held að aðrir mættu taka hann sér til fyrirmyndar og vera hér meira.

En þá velti ég fyrir mér: Hvert var hlutverk sjálfstæðismanna á nefndarfundunum? Var það að lesa bréfið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga? Gat ekki nefndin og meiri hluti nefndarinnar lesið það sjálf? Það kemur fram í athugasemdum frá Samtökum íslenskra sveitarfélaga að þetta eru 2,2 milljarðar. Ég spurði hv. þingmann hvort hún gerði athugasemdir við það. Að sjálfsögðu getur hún ekki gert það vegna þess að frumvarpið er ekki kostnaðarreiknað. Það er það sem þarf að gera. Hvers vegna er þetta gert í svona miklu óðagoti? Hefur ekki verið nægur tími? Hefur ekki núverandi ríkisstjórn setið frá 1. febrúar? Allt sem ríkisstjórnin gerir er handarbakavinna, enda hefur ríkisstjórnin ekkert verksvit. Það er það sem er að. Það er búið að hrifsa af sveitarfélögunum 2 milljarða með hækkun á tryggingagjaldinu og hér gerir Samband íslenskra sveitarfélaga þær athugasemdir að þetta sé hugsanlega kostnaðarauki upp á 2,2 milljarða vegna 5. gr. sem stendur óbreytt. Ég spurði hv. þingmann hvort hún gerði athugasemdir við það. Það þarf ekki að hafa aðra menn eða fulltrúa í nefndunum til að lesa fyrir sig álit og umsagnir, enda fá þeir aðilar sem þurfa að gera athugasemdir og umsagnir við frumvarpið einungis þrjá daga til þess. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Og ég spyr: Hvers vegna var ríkisstjórnin ekki komin með þetta miklu fyrr, hvers vegna ekki? Við erum búin að ræða í sumar hvert málið á fætur öðru sem skiptir engu einasta máli og svo koma svona útskýringar og útúrsnúningar þegar menn eru að spyrja.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Það kemur fram hér af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga, að ef þessi kostnaðarauki fer yfir á sveitarfélögin muni þau ekki geta veitt þá grunnþjónustu sem þau þurfa annast í velferðarkerfinu. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því? Síðan vil ég enda á því að spyrja hv. þingmann: Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af stöðu sveitarfélaganna eða finnst henni sjálfgefið að hæstv. ríkisstjórn geti þegar henni hentar hrifsað til sín tekjustofna frá sveitarfélögunum án þess að bæta þeim það upp aftur? (Forseti hringir.) Er þessi norræna velferðarstjórn að gera það með þeim hætti?