138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:09]
Horfa

Frsm. minni hluta fél.- og trn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það fólk sem er í fullri vinnu og þiggur atvinnuleysisbætur á að mínu mati ekki samúð skilið. Það eru líka dæmi um það að skattgreiðendur sem reka t.d. fyrirtæki reyni í lengstu lög að halda fyrirtækjunum gangandi löngu eftir að það er orðið óskynsamlegt, til þess að viðhalda atvinnu starfsmanna sinna og ganga jafnvel á svig við lögin, iðulega, með því að halda eftir sköttum af launum starfsmanna og nota í reksturinn. Auðvitað eiga þeir ekki að gera það en þeir gera það samt til þess að viðhalda og bjarga fyrirtækinu og svo fer allt á hausinn og þeir sitja uppi með þá skömm að hafa gert þetta og eiga að sjálfsögðu að sæta ábyrgð. Ég held að þeir séu ekkert mikið betur fallnir til þess að taka ábyrgðina en þeir sem svíkja bætur úr velferðarkerfinu. Þeir hafa lent í ákveðinni stöðu og ég hef vissan skilning á því þó að ég hafi ekki skilning á því að menn brjóti lög, en þeir lenda oft í þessari stöðu. Þeir lenda svo í því að þurfa að borga gífurlegt álag, 1% á dag, dráttarvexti o.s.frv. og tvöfaldar sektir ef það sannast, allt með réttu, og ef þeir borga ekki eða hafa gert eitthvað enn verra lenda þeir í fangelsi.

Þetta eru skattalögin öðrum megin. Menn geta lent í þessu af ýmsum ástæðum og alls konar sögur eru til. Hins vegar eru það svo bótaþegarnir sem hafa verið að stela en eru í fullri vinnu — við þurfum að hafa það í huga, frú forseti, að þeir eru í fullri vinnu og þiggja svo bætur úr velferðarkerfinu sem við erum að skerða út um allt núna. Ég sé það ekki sem minni glæp. Þá er ekki verið að skjóta spörfugla með fallbyssum, svo að ég taki það dæmi.