138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:42]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Frú forseti. Mér finnst það nefndarálit sem hér var mælt fyrir, nefndarálit meiri hlutans, vera afskaplega vel unnið þrátt fyrir að stuttur tími hafi vissulega gefist til verksins. Þar er mikil og gagnrýnin hugsun að baki og er gaman að því.

Áður en lengra er haldið og ég fer að tala um einstök atriði vil ég minna á það sem verið er að gera með frumvarpinu sem við tölum um. Vissulega er verið að taka peninga út úr kerfinu og sums staðar er það verulega réttlætanlegt en við þurfum líka að muna að þessa peninga á að nota til góðra verka. Þeim á að verja til að styrkja þau atvinnulausu ungmenni sem við höfum vissulega ástæðu til að hafa verulegar áhyggjur af — ég hef áður sagt að það er eitt stærsta verkefnið sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir í kjölfar efnahagskreppunnar. Við getum verið að tala um 800 milljónir sem fást út úr þessum pakka og væntanlega meira sem kæmi til síðar. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur áttað sig á því að ef fara á út í víðtækar aðgerðir til að mæta atvinnuleysi yngstu kynslóðarinnar þurfa að fylgja því peningar. Fólk hefði kannski mátt átta sig á því á þegar hið flotta kerfi, Fæðingarorlofssjóðurinn, var búið til að því hefði einmitt þurft að fylgja trygg fjármögnun. En það er önnur saga.

Frú forseti. Ég vil fá að ræða aðeins um sumarframfærslu námsmanna sem mér hefur verið hugleikin, bæði inni á þingi og meðan ég starfaði sem formaður ungra jafnaðarmanna. Ég vil fá að hnykkja á athugasemd í nefndaráliti meiri hlutans þar sem segir að meiri hlutinn telji óheppilegt að ekki hafi verið hugað að sumarframfærslu o.s.frv. og beinir því til félags- og tryggingamálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga að fara yfir þessi mál í sameiningu og í samráði við námsmenn — þetta er mjög mikilvægt — svo að fundinn verði farvegur fyrir framfærslu námsmanna í námsleyfum.

Frú forseti. Svo að ég sé alveg sanngjörn verður að koma afar skýrt fram að þessi breyting, þ.e. að námsmenn eigi ekki lengur kost á atvinnuleysisbótum á sumrin, fylgdi mjög mikilvægum pakka, þeim breytingum sem gerðar voru á námslánakerfinu síðsumars þar sem tryggt var að grunnframfærsla námsmanna fór upp í 120 þús. kr. úr 100 þús. kr., sem var verulegur sigur á þeim tímum sem við lifum núna, bara svo þessu sé haldið til haga. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd sem ungir jafnaðarmenn bentu á, um leið og við fögnuðum þessari hækkun grunnframfærslunnar, að námsmenn þurfa líka að lifa á sumrin, námsmenn hafa fyrir börnum að sjá o.s.frv. og í því samhengi má benda á að sú framfærsla sem sveitarfélögin tryggja er lægri en atvinnuleysisbætur. Jafnframt tel ég það réttmætar athugasemdir sem hafa komið fram, bæði í nefndarálitinu og í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar, að það þarf að horfa til samspilsins við samtök sveitarfélaga.

Ég vil enn fremur hnykkja á því sem fulltrúar hagsmunasamtaka námsmanna bentu á í þessu ferli að mikil hætta sé á að fólk lendi milli tveggja kerfa þannig að það geti hvorki átt rétt til atvinnuleysisbóta né til námslána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þetta er eitthvað sem má ekki gerast og við höfum oft séð dæmi þess að námsmenn flækist einhvers staðar á milli kerfa og komi verst allra út. Sú hefur reyndar líka verið raunin með Fæðingarorlofssjóð.

Frú forseti. Ég vil fá að tala um atvinnuleysi yngsta hópsins. Þar vil ég benda á, eins og ég hef svo sem áður gert, að líklegt er að sá hópur sé stærri en 2.600 manns. Sú tala nær til þeirra sem eru skráðir hjá Vinnumálastofnun en mjög líklegt er að stærri hópur sé á framfærslu sveitarfélaganna, foreldra sinna o.s.frv., og sé þess vegna ekki í vinnu og ekki í námi. Þetta er því gríðarlega stórt vandamál sem við stöndum frammi fyrir þar. Þar erum við aftur komin inn á hlutverk sveitarfélaganna í þessu kerfi og ég hef svo sem ítrekað það hér áður að það er gríðarlega mikilvægt að í þeim aðgerðum sem eru fram undan, til stuðnings þessum yngsta hópi, skiptir öllu máli að gott samráð sé haft við sveitarfélögin sem hafa þegar unnið mikla vinnu í þessum málaflokki.

Að lokum vil ég, frú forseti, fá að vísa í álit meiri hlutans og gera smáathugasemd við það sem þar kemur fram. Þar er reyndar verið að rekja og taka undir sjónarmið fulltrúa námsmannahreyfinganna, sem komu á fund nefndarinnar, um að ekki sé nægilegt að horfa eingöngu til menntakerfisins. Þörf sé á fjölbreyttum úrræðum fyrir þennan hóp og telur meiri hlutinn mikilvægt að aðgerðir verði sniðnar að þörfum hópsins og leitað verði margþættra leiða til að tryggja virkni ungs fólks og endurkomu þess á vinnumarkað.

Ég verð að fá að segja það, frú forseti, að mér finnst fullþröngur skilningur á menntakerfinu og hlutverki þess birtast þarna. Ég held að við verðum að hafa það rækilega á bak við eyrað, eins og kemur líka fram þarna, að stærsti hluti ungra atvinnulausra er einungis með grunnskólamenntun. Það er eitthvað sem á að bæta ofan á en það þýðir að við þurfum að víkka menntakerfið okkar út til að fólk stundi ekki bara nám og fái gráður úr einhverjum „litlum kössum á lækjarbakka“ sem merktir eru með orðinu „skóli“. Það eitthvað sem við þurfum að vinna betur með en ég vil ítreka að mér finnst að leggja eigi alla áherslu á að þessi yngsti hópur rati inn í menntakerfið og fái þar fjölbreytt úrræði.