138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Hún fór mjög vel yfir það sem hún hefur áhyggjur af, þ.e. ungum námsmönnum, og ég fagna því. Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að nú er hún ný á þingi eins og ég, hvað henni finnist um þessi vinnubrögð, þann hraða sem er á málunum, þ.e. það er mjög stuttur tími. Ég var ekki í málflutningi mínum að gagnrýna nefndarstarfið og leiðrétti það hér með ef einhver misskilningur hefur verið í því. Ég tel nefndina hafa unnið mjög vel við þessi erfiðu skilyrði. Nefndin stóð sig vel, en hæstv. ráðherra stóð sig illa með því að koma svona seint fram með málið. Það er það sem ég er fyrst og fremst að gagnrýna, þ.e. framkvæmdarvaldið. En nefndarmenn í hv. félagsmálanefnd stóðu sig einstaklega vel. Það voru gerðar ákveðnar breytingar sem ég tel til bóta. En mig langar samt að spyrja hv. þingmann: Hvað finnst henni um þessi vinnubrögð, þennan hraða sem er hér á málum? Ég verð að viðurkenna, frú forseti, og hef sagt það áður, mér finnst hraðinn oft vera mjög mikill bæði í þessu og öðrum málum. Hvað finnst hv. þingmanni um það?

Eins vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún taki undir þær áhyggjur mínar að herða þurfi reglurnar enn frekar við bótasvikum. Ég sagði áðan í andsvari og ræðu minni að ég mundi liðsinna stjórnarliðum við að herða þær vegna þess að það eru náttúrlega svik ef fólk er að taka peninga, en við verðum samt að gæta að okkur og fara varlega þannig að við séum ekki að láta að því liggja að allir sem þiggja atvinnuleysisbætur séu að svíkja. Það er líka mjög mikilvægt að við komum því til skila.

En það er nú einu sinni þannig, virðulegur forseti, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að við erum á næsta ári að borga hátt í 30 milljarða í atvinnuleysisbætur. Hvað finnst hv. þingmanni um það að nú er verið að flytja inn erlent vinnuafl í stórum stíl á meðan við erum atvinnulaus? Hvað finnst hv. þingmanni? Þurfum við ekki einmitt að herða á því að forðast það að hingað komi erlent vinnuafl þegar við erum þegar með 9,6% atvinnuleysisspá á næsta ári?