138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:56]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson gætum staðið hér í alla nótt og rætt þessi mál fram og til baka. Það sem ég vil segja um forgangsröðun og vinnsluhraða mála í ríkisstjórninni og hér á þingi er að þó að menn hafi unnið hratt að málum þá er það nú þannig að þau stóru mál, tökum skuldavanda heimilanna sem dæmi, eru mál sem krefjast þess að það sé legið nokkuð yfir þeim og það hversu hratt þessi stórmál hafa verið að koma inn í þingið er aðdáunarvert. Ég hefði ekki viljað sjá þau samt unnin enn þá hraðar, þá hefðum við kannski ekki verið alveg í nógu góðum málum með þau óunnin og ókláruð hér í þinginu. Þarna má kannski aðeins skjóta því inn að við hefðum á þinginu, þann tíma sem ég hef setið hér, t.d. í desember, getað notað miklu meiri tíma til þess að tala um hvernig breytingar við viljum gera á bótakerfinu okkar. Við hefðum getað talað um Fæðingarorlofssjóð og atvinnuleysistryggingakerfið. Við hefðum getað talað um mörg stór og mikilvæg mál, skattamálin o.fl., ef fólk hefði ekki tekið sér svona langan tíma í málþóf um Icesave-deiluna af því þar var vissulega um málþóf að ræða. Það var ekki nógu gott.

Hvað varðar hins vegar langtímaatvinnuleysi erum við hv. þingmaður hjartanlega sammála. Eins og ég hef látið koma hérna fram hafði ég reynt að óska eftir utandagskrárumræðu um atvinnuleysi, langtímaatvinnuleysi ungs fólks, sem gekk ekki af því að ég er úr sama flokki og hv. félagsmálaráðherra. En ég deili þessum áhyggjum og ítreka að mér finnst þetta eitt stærsta verkefni sem við stöndum frammi fyrir í efnahagskreppunni núna. Höldum áfram að vinna að því saman.

Erlenda vinnuaflið, það er nú einu sinni svo að það stjórnast víst af framboði og eftirspurn. Þá vil ég beina þeirri spurningu til baka til hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar hvort hann telji kannski að atvinnustefna Sjálfstæðisflokksins hafi verið þannig að ekki (Forseti hringir.) hafi verið búið til nógu mikið af spennandi störfum fyrir það unga fólk sem við erum að mennta núna og (Forseti hringir.) höfum verið að gera á undanförnum árum.