138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Frú forseti. Það er oft gaman í þingsalnum á kvöldin þegar hv. þingmenn missa töluna á því hversu oft þeir hafa farið í andsvar og fengið svar. En þar sem hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir var að gagnrýna umræðuna og þann tíma sem umræður á Alþingi tóku í hinu stóra Icesave-mál, mótmæli ég því harðlega að þar hafi verið eitthvert málþóf í gangi. Ég upplýsi það bara hér með að af minni hálfu er enn margt ósagt í því máli og ég gæti haldið langar ræður um það mál. Ef ekki væri búið að breyta þingsköpunum gæti ég jafnvel haldið ræðu í tíu klukkustundir og fimm mínútur eins og metið var víst á sínum tíma hjá hæstv. forsætisráðherra sem þá var í stjórnarandstöðu. Ég fellst einfaldlega ekki á söguskýringu hv. þingmanns að hér hafi verið málþóf og jafnframt vil ég enn og aftur benda á að það var margítrekað boðið upp á þá lausn og margítrekað lögð fram sú leið stjórnarandstöðunnar að málinu yrði frestað og á dagskrá kæmust önnur merkilegri og önnur mikilvægari mál sem þarf að klára fyrir áramótin, eins og skattamálin, eins og fjárlagafrumvarpið. Þessu boði var ekki tekið og þar bera ríkisstjórnarflokkarnir ábyrgð að hafa ekki fallist á það góða boð. Spurningu varðandi þetta verða þeir að svara sjálfir. Hins vegar er algjörlega ljóst að þrátt fyrir að Icesave-umræðan hefði tekið styttri tíma hélt ríkisstjórnin ekki þannig á sínum málum að hún væri tilbúin inn í þingið á þessum tíma. Það var einfaldlega ekki þannig. Það er því hæpin söguskýring að halda því fram að hefði Icesave-umræðan tekið snöggt af væru öll þessi mál komin í gegn af því að þau hefðu öll verið tilbúin af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Það er einfaldlega rangt og rangt að halda því fram hér fullum fetum.

Varðandi það hvernig aðstæður Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á fyrir ungt fólk á síðustu árum er mér bæði ljúft og skylt að upplýsa það að ég held að þær aðstæður hafi verið mjög góðar, bæði með þeim breytingum sem Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir meðan hann var í ríkisstjórn varðandi menntakerfið, það var stóreflt, og stórfjölgað þeim tækifærum og því vali sem ungt fólk á Íslandi hafði til að mennta sig. Það eru verk Sjálfstæðisflokksins og annarra flokka sem hann starfaði með í ríkisstjórn, vegna þess að við höfum aldrei sagt annað en að við höfum starfað með öðrum flokkum í ríkisstjórn, ólíkt því sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa haldið fram í þessum stól því að miðað við hvernig þeir tala hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf verið einn í ríkisstjórn. (Gripið fram í: Betur að svo hefði verið.) Það hefði kannski verið betra ef svo hefði verið þá gætum við borið ábyrgð á öllu hvort sem það fór vel eða illa í hvaða málaflokki sem það er. En þetta er einfaldlega ekki sanngjörn umræða og leiðigjörn að menn sem starfa í pólitík á Íslandi hafi ekki dug í sér eða kjark til þess að tala eins og þeir hafi einhvern tímann ráðið einhverju. (Gripið fram í.) Þeir loka einfaldlega augunum fyrir því, sá tími var aldrei til, og þar tala ég og beini orðum mínum til hv. þingmanna Samfylkingarinnar sem þá sátu á þingi. Ég beini orðum mínum ekki til þeirra hv. þingmanna sem eru nýir hér inni, eins og t.d. hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur sem talaði á undan mér, sá hv. þingmaður er undanskilinn þessum ákúrum mínum.

En fremstur í flokki þar t.d. fer núverandi hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, sem í hvert einasta skipti sem hann kemur í ræðustól Alþingis bendir á að allt sem hér fór úrskeiðis sé Sjálfstæðisflokknum að kenna og talar eins og hann hafi aldrei nokkurn tímann verið aðili að ríkisstjórn, verið stuðningsmaður ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar. (Gripið fram í.) Ég tel að ef við flettum upp í blöðum og flettum upp í Alþingistíðindum jafnvel gætum við jafnvel komist að þeirri niðurstöðu að hv. þingmaður var í Samfylkingunni undanfarin ár, líka á meðan Samfylkingin var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.) Það sé einfaldlega hægt að fletta því upp og benda á það svart á hvítu svo það sé alveg á hreinu.

Frú forseti. Það er best að ég byrji á því að ræða það mál sem hér er til meðferðar nú þegar tími minn er alveg að verða búinn. En þetta er svona stundum þegar kviknar í manni einhver neisti sem þarf að klára. En, frú forseti, það er málsmeðferðin enn og aftur sem við horfum á í þessu máli og hefur verið gagnrýnd, bæði af þeim hv. þingmönnum sem sitja í nefndinni og jafnframt af þeim hagsmunaaðilum sem hefur verið boðið að senda inn álit eða umsögn með mjög skömmum fyrirvara og fengið mjög skamman fyrirvara á því að koma á fund nefndarinnar. Enn og aftur vil ég ítreka það að við skulum strengja þess heit, þeir þingmenn sem hér sitja, að láta svona vinnubrögð ekki verða regluna í þinginu en maður fær það samt aðeins á tilfinninguna að það sé þannig.

Ef við tölum aðeins um það mál sem bar á góma í ræðu síðasta hv. þingmanns, Önnu Pálu Sverrisdóttur, sem varðar skuldavanda heimilanna sem félags- og tryggingamálanefnd fór með í október eða nóvember eða á yfirstandandi þingi, það var mál sem fór mjög hratt í gegnum þingið. Ég átti aðild að því sem varamaður í félags- og tryggingamálanefnd þegar það mál fór í gegn. Það var gert í þeirri trú að menn væru að gera sitt besta og menn væru að byrja á ákveðnu ferli. Nú er komið að því að fara yfir það hvort ferlið hafi skilað árangri og hvort þau úrræði sem boðið er upp á í þeim lögum hafi verið fullnægjandi og séu nægileg til að taka á vandanum. Ég hef nokkrar áhyggjur af því hvernig stöðu mála er komið varðandi það en ég fagna því að sú nefnd sem á að fara yfir þessi mál, sem kom inn í lögin eftir vinnu þingnefndarinnar, tekur senn til starfa og fer yfir þetta. Það er ánægjulegt og gott að vita til þess að skoða eigi þessi mál af fullri alvöru, vegna þess að þrátt fyrir þau úrræði sem boðið er upp á í lögunum virðist sem þeim nauðungarsölum sem óskað hefur verið eftir og hefur verið frestað samkvæmt heimild í lögum, fari ekki fækkandi. Það veldur vissum vonbrigðum og fara þarf yfir hvers vegna svo er. Ég treysti því að það verði gert bæði hratt og vel.

Frú forseti. Í þessari umræðu hefur verið fjallað talsvert um aðkomu sveitarfélaganna og í rauninni ónóga aðkomu sveitarfélaganna, ónógt samráð við sveitarfélögin. Nú er það svo að frá því að ég hóf að fylgjast með stjórnmálum hafa sveitarfélögin talið sig vera hlunnfarin í því þegar verið er að taka stórar og kostnaðarsamar ákvarðanir í þinginu sem varða fjárhag sveitarfélaganna og að ekki hafi verið gætt nægilegs samráðs við þau. Svo virðist sem engin breyting hafi orðið þar á. Það er miður. Við þurfum að taka okkur tak í þessum málum og gæta að því þar sem sveitarfélögin fara með stóra og kostnaðarsama málaflokka, og við erum talsvert dugleg við það, bæði þingmenn og eins þeir sem fjalla um málefni sveitarfélaganna í fjölmiðlum, að gagnrýna mjög harðlega útgjaldaaukningu á því sviði, en ef við ætlum að leyfa okkur það á Alþingi að gagnrýna útgjaldaaukningu sveitarfélaganna verðum við líka að gæta að því hvernig við komum fram við sveitarfélögin þegar verið er að taka kostnaðarsamar ákvarðanir. Gríðarlega mikilvægt er að farið verði enn og aftur yfir það mál og reynt að koma því í eitthvert fastara ferli, þannig að það sé ekki eins og í hverju einasta máli að það bara óvart gleymist að hafa samráð við sveitarfélögin, óvart gleymist að kostnaðarmeta hversu mikil útgjöld þetta hafi í för með sér fyrir sveitarfélögin. Þetta gerist æ ofan í æ, og ég er ekkert að afsaka fyrri ríkisstjórnir frekar en þá sem nú ríkir. Þetta er mál sem þarf að taka á og gera að ófrávíkjanlegri venju á tossalistanum þegar fjallað er um frumvörp þingsins að kanna þetta. Felur það frumvarp sem verið er að fjalla um í sér ákvarðanir sem auka kostnað hjá sveitarfélögunum og ef svo er þarf að meta þær og fara yfir þær í samráði við sveitarfélögin. Það er gríðarlega mikilvægt að svo sé.

Frú forseti. Talsvert hefur verið gagnrýnt og farið yfir það hvernig eftirliti er háttað með þeim aðilum sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum og taka atvinnuleysisbætur. Nú hafa aðilar vinnumarkaðarins bent á að því væri betur komið hjá þeim að hafa eftirlit með þessu og höndla með þessa framkvæmd alla, að meta hverjir eiga kost á bótum og hvort þeir uppfylli skilyrði og hafa eftirfylgni með því að lögunum sé fylgt. Þetta er atriði og leið sem ég tel að við eigum að skoða vegna þess að enginn hefur betri yfirsýn yfir það hvernig málum er háttað í atvinnulífinu en aðilar vinnumarkaðarins. Ég tel mikilvægt að skoða þessa leið í staðinn fyrir að kasta henni út af borðinu óræddri vegna þess að við höfum búið við þann munað að hér á landi hefur verið mjög lítið atvinnuleysi. Ég ætla rétt að vona að við eigum eftir að sjá það aftur innan tíðar að svo verði.

Hins vegar núna þegar atvinnuleysi hefur aukist til muna reynir fyrst á kerfið og þá eigum við að leita allra lausna sem geta leitt af sér meiri skilvirkni og meira gagnsæi o.s.frv. Því hvet ég hæstv. félagsmálaráðherra til að taka vel í þessar hugmyndir og ræða við aðila vinnumarkaðarins um að taka yfir þetta verkefni. Ég gæti vel ímyndað mér að þetta væri líka fróðlegt verkefni fyrir félags- og tryggingamálanefnd að fara aðeins yfir á fundum sínum og kanna hvort aðilar vinnumarkaðarins hafi útfært þessar hugmyndir eitthvað frekar. Það væri gríðarlega áhugavert og gott framtak hjá félags- og tryggingamálanefnd, sem hefur nú, ein nefnda, náð að vinna þannig a.m.k. í einu máli að menn voru samstiga. Ég vil því hvetja hv. nefndarmenn sem sitja í félags- og tryggingamálanefnd til að skoða þetta mál. Ég er mjög spennt að sjá hvort þessi hvatning mín komi til með að skila árangri, það er aldrei að vita.

Frú forseti. Það er líka gríðarlega mikilvægt að horfa til framtíðar og skoða hvernig þessum málum verði háttað á næstunni. Nú er það svo, eins og kom fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar sem situr jafnframt í fjárlaganefnd, að áætlað er að 30 milljarðar kr. fari í Atvinnuleysistryggingasjóð á komandi árum, gríðarlegt fjármagn og það er sláandi að þetta sé staðan. Við Íslendingar erum ekki vön háu atvinnuleysisstigi, að hér sé mikið atvinnuleysi. Það fer okkur einfaldlega illa að hafa mikið atvinnuleysi. Íslendingar eru duglegt fólk upp til hópa og sumir halda því fram að við séum allt of dugleg, menn séu í meira en 100% starfi og vilji helst hafa það þannig, það sé svona íslenska normið að vinna dálítið mikið. Það er bara íslenska þjóðarsálin í hnotskurn. Þetta er það sem við gerum og höfum gert. Ég er ekki að segja að þetta sé gríðarlega hollt, þetta er bara eðli mannskepnunnar hér á landi og hefur verið í gegnum tíðina.

Eitt sem ég hef miklar áhyggjur af í þessu sambandi er hugsanleg aðild lands okkar að Evrópusambandinu vegna þess að atvinnuleysi í Evrópusambandslöndunum er hátt. Það er að jafnaði mjög hátt. Það helst hátt vegna þess að hagkerfið virkar þannig, aðrir þættir eru metnir meira en það að eyða atvinnuleysinu. Þannig er staðan. Við skulum aldrei sætta okkur við að hér ríki atvinnuleysi af þessari stærðargráðu. Atvinnuleysi í landinu mældist í september 7,2%. Ég tel að það sé óviðunandi. Ýmsir hafa orðið til að segja að þetta sé nú ekki svo slæmt. Atvinnuleysi í ríkjum OECD hafi mælst á þeim tíma 8,6%, en 9,7% að jafnaði á evrusvæðinu. Við séum því bara í ansi góðum málum miðað við OECD-löndin og miðað við Evrópusambandslöndin. Mér finnst þetta samt allt of hátt. Ég mun aldrei sætta mig við að staðan sé svona. Ég mun aldrei sætta mig við að 7 eða 8 eða 9% atvinnuleysi sé eitthvert norm í íslensku samfélagi. Það skulum við aldrei gera. Af þessari ástæðu hef ég gríðarlegar áhyggjur af þeirri miklu áherslu sem Samfylkingin leggur á það mál að við göngum inn í Evrópusambandið. Ég hef miklar áhyggjur af því. Þetta, sú staðreynd að atvinnuleysi í Evrópusambandsríkjunum sé að jafnaði tæp 10%, vegur þyngst í því að ég mun aldrei sætta mig við að við göngum inn í Evrópusambandið. Það er staðreynd. Við skulum hvorki láta ESB-sinna né leiðtoga ESB-landanna sannfæra okkur um að 9,7% atvinnuleysi sé eðlilegt og viðvarandi staðreynd sem við ætlum að bjóða Íslendingum upp á. Frú forseti. Það mun ég ekki gera og ég mun beita mér í þeirri baráttu.

Í stóra samhenginu er mikilvægast af öllu að hér verði lagt upp í kröftuga vegferð í þá átt að fjölga atvinnumöguleikum og skapa þannig aðstæður að störfum fjölgi. Þannig tökumst við best á við atvinnuleysi og þannig tökumst við best á við þá miklu útgjaldaaukningu sem atvinnuleysi hefur í för með sér.

Frú forseti. Að lokum óska ég nefndarmönnum öllum velfarnaðar í því að klára þetta mál, þetta stóra og mikilvæga mál, og lýsi yfir áhuga á að fá að fylgjast aðeins með þeirri vinnu.