138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[23:23]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur verið og er sammála því sem fram hefur komið í umræðum að hv. félags- og tryggingamálanefnd vann afskaplega vel í þessu máli. Menn hafa svolítið talað um hversu stuttan tíma hún hafði til þess, einungis þrjá daga, en þetta segir mér bara að menn hefðu kannski betur eytt aðeins minni tíma í Icesave en ekki jafnmiklum og raun ber vitni. Það er kannski eitthvað upp úr því að hafa að vinna málin hratt og vel með skilvirkum hætti.

Nefndin hefur gert nokkrar breytingar á frumvarpinu, sem hafa orðið að nokkru umtalsefni, og þar held ég að hún hafi farið ágætan meðalveg. Allir mikilvægustu þættirnir sem lúta að því að við getum haldið úti skilvirku eftirliti með atvinnuleitendum og stutt við aðgerðir til að koma í veg fyrir misnotkun á kerfinu eru inni í frumvarpinu. Þá nefni ég sérstaklega möguleikann til innköllunar atvinnuleitenda með skömmum fyrirvara og tilkynningarskyldu atvinnuleitenda á tilfallandi vinnu. Þetta tvennt skiptir afskaplega miklu máli til að koma í veg fyrir svik í kerfinu og hefur mikil fælingaráhrif.

Sá tími sem menn verða án bóta ef þeir synja vinnu verður óbreyttur frá því sem nú er. Ástæðan er ekki síst þær athugasemdir sem fram komu hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna ótta um að þær breytingar mundu leiða til aukinnar ásóknar í framfærslu hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna af því fólki sem mundi falla af bótum og þá reiknuðu þeir það þannig að þorri þess fólks mundi leita til félagsþjónustunnar en færi ekki í vinnu og gáfu sér þar með að ýmsu leyti nokkuð stórkarlalegar forsendur. En engu að síður tel ég það óþarfa að róta í því á þessu stigi því að hitt er alveg ljóst, sem kom fram líka og hefur verið óumdeilt, að Vinnumálastofnun hefur vegna hinnar skyndilegu aukningar á atvinnuleysinu ekki verið í stakk búin til að vinna með atvinnuleitendum með þeim hætti sem við hefðum helst kosið á undanförnum mánuðum og missirum. Það hefur leitt til þess að fólk hefur setið heima og við höfum ekki haft úrræði og mannafla til að snerta fólk, róta í því og tala við það til að bjóða því upp á vinnumarkaðsúrræði o.s.frv. Ég held að það sé nóg að taka eitt skref í einu. Við þurfum hvort sem er að koma með annað frumvarp inn í þingið á nýju ári, í febrúar eða mars, til að kveða á um framtíðarfyrirkomulagið með hlutabætur og bætur fyrir sjálfstætt starfandi. Það er enn þá bundið í bráðabirgðaákvæði sem rennur út í vor. Ég tel ekki rétt að festa þessi ákvæði lengur en til sex mánaða í senn. Eðlilegra er að koma alltaf með nýtt lagafrumvarp í hvert sinn vegna þess að þetta er mikilvægasta samfélagsmálið sem við þurfum að takast á við á næstu missirum. Við eigum að vera á vaktinni í þessu máli.

Ég tek undir áhyggjur sveitarfélaganna. Þau reiknuðu líka mikinn kostnað í kostnaðarumsögn sinni af því að Vinnumálastofnun mundi núna fara að vinna af fullum krafti vegna þess að okkur hefur tekist að tryggja henni aukafé á fjárlögum og erum að tryggja henni aukin úrræði til að hún geti boðið fólki upp á vinnumarkaðsúrræði. Það finnst mér hins vegar ekki vera útreikningur sem gangi upp. Ég get satt að segja ekki tekið það alvarlega þegar ekki er um að ræða almennar lagabreytingar heldur einungis breytt verklag hjá stofnun í samræmi við lagaskyldur hennar. Þá má með sama hætti segja: Eiga þá sveitarfélögin að borga ríkinu einhverjar bætur fyrir síðasta ár vegna þess að þau hafa sloppið við að fá fólk á framfærslu hjá félagsþjónustunni sem þau hefðu átt að fá ef Vinnumálastofnun hefði verið í stakk búin til að vinna vinnuna sína? Það eru orðnar svo margar skildagatíðir í þessum spurningum hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, með fullri virðingu fyrir þeim ágætu mönnum, að þarna brestur mann svolítið þróttinn að elta röksemdafærsluna. Ég held þess vegna að ágætt sé að fara þá leið sem nefndin hefur farið og gera ekki frekari breytingar á þeim tímafrestum sem fólk er utan bóta. En sjálfsagt er að hafa það í huga og nefna það úr ræðustól Alþingis, af því að menn velta því stundum fyrir sér hvort við séum að ganga of langt, að því nágrannalandi okkar, Danmörku, sem hefur tekist best að hafa stjórn á atvinnuleysinu, tryggja mikla atvinnuþátttöku og hefur samt mjög ívilnandi atvinnuleysistryggingakerfi, hefur tekist það samfara því að Danir hafa mjög stífa reglu hvað þetta varðar. Eftir fyrstu synjun dettur fólk út af bótum eftir dönskum reglum og þarf að vinna í 300 stundir og hefur tíu vikur til að vinna þær 300 stundir til að komast aftur á bætur.

Ég held að við séum langt í frá að gera þetta kerfi með einhverjum hætti ómanneskjulegt. Við eigum hins vegar að láta það duga í bili að taka betur á, nýta þetta aukna fjármagn sem Vinnumálastofnun er nú að fá og sjá hvert það leiðir okkur og hvort meira þurfi síðan að gera. Þess vegna hef ég ekki þungar áhyggjur af umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna þess að við erum búin að mæta öllum efnislegum athugasemdum sambandsins að öðru leyti en því að það hefur vissulega áhyggjur af námsmannaákvæðinu. Það er alveg rétt sem hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir rakti áðan að á móti niðurfellingu sumarbótaréttar námsmanna í haust kom mjög myndarleg hækkun námslána þannig að námsmenn í lánshæfu námi hafa fengið ákveðið þar á móti. Við þurfum að setjast yfir þetta allt er varðar framfærslu námsmanna, sumarframfærsluna, með sveitarfélögunum og menntamálaráðuneytinu og það er margt sem þarf að setjast yfir þar. Ég hef margsinnis sagt og hef lagt á það áherslu við menntamálaráðherra að fólk sem er í ólánshæfu námi í framhaldsskóla og með börn á framfæri eigi að geta fengið lánsrétt hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Gangi það eftir léttist mjög framfærslubyrði sveitarfélaganna. Mér finnst það einboðið og algerlega borðleggjandi að fólk sem er með börn á framfæri og er í framhaldsskólanámi eigi að komast inn undir lánasjóðinn þó að það sé ekki í lánshæfu námi. Við þurfum að stilla saman bestu kostina, hvar er best að sjá fyrir framfærslu einstakra hópa og það er eitt sem er alveg öruggt: Sumarbótaréttur námsmanna er allra, allra versta leiðin sem hægt er að hugsa sér til að framfæra námsmenn á sumrin. Svo einfalt er það mál.

Það eru til margar aðrar leiðir, ódýrari og einfaldari en við þurfum að útfæra þær í samvinnu við sveitarfélögin. Mörg sveitarfélög víða um land hafa af miklum myndarskap boðið öllum námsmönnum sumarvinnu og tryggt þeim sumarvinnu. Það gerði Hafnarfjörður og Kópavogur í sumar og búast við að gera það áfram næsta sumar. Ég held að þetta sé einfaldlega atriði sem við þurfum að fara yfir með sveitarfélögunum. Ef þau bjóða fram vinnu, hvað getum við gert þar á móti? Vinnumálastofnun getur tekið þátt í átaksverkefnum eftir sem áður o.s.frv. Þetta er einfaldlega atriði sem við vinnum áfram með sveitarfélögunum og munum fara yfir.

Hér hefur svolítið verið talað um hinn mikla flýti og margir hafa sagt að þetta mál hefði fyrir löngu getað verið komið inn og spyrja af hverju það kom svona seint. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson gerði athugasemdir við meint sleifarlag félagsmálaráðherra en þá ætla ég að rekja aðeins verklagið. Ég varð ráðherra 10. maí og á fyrsta fund með aðilum vinnumarkaðarins um þessi mál og önnur tengd síðla í maímánuði. Það var auðvitað þannig að við héldum niðri í okkur andanum í júnímánuði yfir hversu margir námsmenn mundu koma inn á atvinnuleysisbætur. Þessi reikningur hefði vel getað verið miklu hærri en þessar 300 milljónir sem hann þó varð og við vorum alveg undir það búin að enn meiri ásókn yrði í atvinnuleysisbæturnar. Blessunarlega varð það ekki og ég held að það sé fyrst og fremst vegna þess að menn hafi ekki áttað sig á því almennt hversu auðvelt það er að fá atvinnuleysisbætur í kerfinu eins og það hefur verið hingað til.

Við skoðuðum síðan stöðu langtímaatvinnulauss ungs fólks í júnímánuði og það var að verða þá þegar verulegt áhyggjuefni. Ég byrjaði að ræða þetta við sérfræðinga sem ég þekki, ræddi þetta í upphafi í júlímánuði við írska og hollenska kollega mína á ráðherrafundi Evrópusambandsins um vinnumál. Við fengum upplýsingar frá þeim hvað þeir hefðu gert í þessum efnum, settum af stað frekari samráðsvinnu í júlímánuði með menntamálaráðuneytinu um upphaf í samvinnu við að binda saman þessi tvö kerfi, náðum niðurstöðu í hækkuninni á námslánum í lok ágúst eða byrjun september að því leyti og settum þá af stað vinnuhópa í að fara yfir og greina þessa stöðu. Þeir vinna að grundvallarrannsókn á unga atvinnulausa fólkinu í byrjun október og ég kalla strax eftir nánari niðurstöðum því að niðurstöðurnar voru svo hrikalegar. Ég bað um viðbótarrannsókn því að ég trúði ekki mínum eigin augum. Það er því á grundvelli þessara niðurstaðna sem við vinnum dag frá degi, erum vakin og sofin yfir þessu máli.

Aðrir þættir málsins, hvort sem það eru hlutabæturnar eða réttindi sjálfstætt starfandi, voru ræddir við alla hagsmunaaðila fyrir löngu síðan og þeir hafa vitað það alveg frá því í haust. Það sem við erum með í þessu máli og er auðvitað það sem gerir það svona fljótandi er að við vorum að reyna að taka á þeim alvarlega vanda með unga atvinnulausa fólkið. Við vorum að reyna að taka utan um það, við vorum að reyna að finna peninga og byrjuðum að búa til peninga innan kerfisins og komum fyrst með hugmyndir um að skerða bæturnar því að það er leiðin sem aðrir hafa farið, þ.e. leið Hollendinga og Dana. Við vorum að reyna að læra af þeim sem best hafa gert. Um þetta vorum við auðvitað í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins dag eftir dag og viku eftir viku, seinni hluta nóvembermánaðar. Og við erum ekki búnir að binda þetta mál saman fyrr af því að það varð ekkert samkomulag við aðila vinnumarkaðarins um að nota mætti það fé sem sparaðist af þessum aðgerðum í fjölþætt úrræði fyrir ungt fólk því að menntaúrræði verða líka að vera til fyrir það fólk. Við verðum að geta látið peninga fylgja hverjum og einum. Þetta geta ekki bara verið gamaldags virkniúrræði af gömlu sortinni. Þetta verða að vera fjölþættari og flóknari úrræði en nokkru sinni fyrr hafa sést. Þetta vorum við að binda saman alveg fram á síðustu stundu. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á því. Þetta var verk sem er afleiðing þess að við sjáum kristallast í kjölfar atvinnuleysisins hversu mikill og djúpstæður vandi er hjá ungu fólki í samfélaginu, hversu stór hópur það er sem er vegalaus eða hefur orðið viðskila við skólakerfið og ekki náð að finna sér fótfestu á vinnumarkaði. Þessi hópur duldist sjónum okkar í góðærinu vegna þess að það var svo mikil eftirspurn eftir vinnuafli að þessir krakkar gátu valsað úr einni vinnu í aðra og þótt þeir festu ekki rætur tók enginn eftir því því að þeir fóru strax í næstu vinnu. Við sjáum þetta ekki kristallast fyrr en í atvinnuleysinu og við höfum tekið á því frá fyrstu mínútu og unnið í því.

Svo er það auðvitað þannig að við vorum að togast á um hvernig ætti að fjármagna þetta. Þegar við setjumst niður með vinum okkar, aðilum vinnumarkaðarins, eru þeir ekki alltaf sammála okkur. Það eru ólík viðhorf milli ólíkra stéttarfélaga og ólík viðhorf milli vinnuveitenda og verkalýðsfélaga. Ég lít ekki svo á sem ráðherra, sem ber ábyrgð gagnvart Alþingi Íslendinga, að það sé mitt að sitja og vera fundarstjóri þangað til þeir komast að niðurstöðu. Hlutverk mitt er að svara á Alþingi Íslendinga fyrir þá stefnu sem ríkisstjórnin telur boðlegt að reka í atvinnumálum í landinu. Og þegar atvinnuleysi er orðið erfiðasta samfélagslega vandamálið sem við eigum við að glíma núna þá ber ég sérstaklega þunga ábyrgð. Þetta er mál sem ég hef rætt aftur og aftur þegar við komum fyrir félags- og tryggingamálanefnd og ég hef fundið áhyggjur þingmanna þar. Ég kalla eftir því að þingmenn virði þingið meira en svo og okkur stjórnmálamenn að hafa af því áhyggjur, þó að auðvitað sé það svo að hagsmunaaðilar mundu gjarnan vilja hafa enn meira samráð og sitja enn lengur og þeir allir mundu gjarnan vilja fá sitt fram, en á endanum verðum við að taka ákvörðun og á endanum verðum við að komast að niðurstöðu. Við getum ekki í mörgum tilvikum og mörgum málum talað okkur niður á niðurstöðu þar sem allir eru 100% sáttir. Ég held að um þetta mál sé tiltölulega mikill friður og um það hafi náðst ágætlega góð sátt miðað við hversu erfitt og flókið það var. Auðvitað reyndi það á en við höfum unnið í því baki brotnu.

Einn vanda búum við við í íslensku stjórnkerfi. Hann er sá að starfsfólk flæðir ekki milli ráðuneyta í kjölfar verkefna heldur eru ráðuneytin sjálfstæðar stjórnareiningar. Það er einn versti gallinn á íslenska stjórnkerfinu og það leiðir af því að þegar svona mikið álag dynur yfir og ráðuneyti velferðarmála er beinlínis að kafna í fjölda verkefna er ekki spurt um það hversu mikið fyrir liggi annars staðar og hversu mörg önnur verkefni þarf að vinna á sama tíma. Á sama tíma vorum við að vinna sem okkar mesta forgangsmál í úrvinnslu skuldavanda heimilanna. Verkefnin eru flókin en það þarf að vinna þau. Það hafði engin djúpstæð greiningarvinna farið neins staðar fram á þessum alvarlega atvinnuleysisvanda. Hún er unnin í sjálfboðavinnu af fólki sem menntamálaráðherra og ég kölluðum til í byrjun september og báðum um að hjálpa okkur. Okkar bestu sérfræðingar voru tilbúnir að vinna nótt og dag í þessu fyrir okkur kauplaust. Það sýnir alvöru málsins og það sýnir hversu mikið er spunnið í íslenska þjóð að á slíkum ögurstundum skulu menn vera tilbúnir að vinna svona. Þannig verðum við að vinna okkur í gegnum þessi vandamál hvert á fætur öðru.

Hér var framtíðarkerfið aðeins nefnt, hvernig við sjáum atvinnuleysistryggingakerfið þróast áfram. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að leggja núna allt kapp á að koma í framkvæmd þeim miklu verkefnum sem ég hef lofað á síðustu dögum og vikum að ráðist verði í. Við munum kynna frekari útfærslu á því á morgun, fara að auglýsa eftir samstarfsaðilum til verka með okkur. Við þurfum fyrirtæki sem eru tilbúin að leggjast á árar með okkur, við þurfum einstaklinga sem eru tilbúnir að leggjast á árarnar. Við höfum verið að gera samninga við samtök sem eru tilbúin að vinna með okkur í verkefninu og við munum auðvitað nýta verkalýðshreyfinguna, vinna með henni og sveitarfélögunum. Þannig ætlum við að búa til fínriðið net til að vinna í þessum unga hópi.

Síðan þurfum við að koma af stað betra samstarfi við stéttarfélögin. Það er einfaldlega ekki þannig að við getum keypt okkur frá þessum vanda með því að afhenda hann einhverjum öðrum. Við kaupum okkur ekki frá þeim vanda með því að biðja aðila vinnumarkaðarins að taka hann af okkur og hætta að hugsa um hann hér. Við vorum kosin af fólkinu í landinu til að leysa úr þeim vanda sem á okkur dynur í kjölfar hrunsins og við eigum að standa við það. Við eigum að leita samstarfs við aðila vinnumarkaðarins um það af því að þeir geta svo ótrúlega margt vegna þess að þeir hafa tengsl inn í fyrirtækin, bæði við stjórnendur fyrirtækja, þ.e. atvinnurekendahliðin, og svo líka verkalýðshreyfingin auðvitað. Við eigum að nýta hið fínriðna félagslega net verkalýðshreyfingarinnar og við erum einmitt að hefja viðræður við verkalýðshreyfinguna um það nákvæmlega hvernig hægt sé að hugsa sér ríkari aðkomu hennar að þessum verkefnum. Það er ekki með því að einkavæða heila kerfið og afneita ábyrgð okkar á því og afhenda einhverjum öðrum heldur með því að semja við verkalýðshreyfinguna um tiltekna verkþætti. Við erum að horfa á margt. Mér finnst það t.d. mjög skynsamlegt að reyna að fá stéttarfélögin til að taka það að sér að vera fyrsti viðkomustaður fólks sem verður atvinnulaust þannig að það fái upplýsingar í stéttarfélögum sínum því að við eigum öll samfélagslega séð mikið undir því að viðhalda mikilli þátttöku í stéttarfélögum.

Ég held að íslenskt vinnumarkaðsmódel hafi skilað okkur miklum árangri sem samfélagi á undanförnum árum. Það hefur skilað okkur mikilli samfélagslegri ábyrgð bæði atvinnurekenda og launþegahreyfingar. Það hefur líka skilað okkur sveigjanlegum vinnumarkaði og þar með vörn gegn því atvinnuleysi sem ella fylgir flóknari samfélagsgerð því það er ekki rétt að aðild að Evrópusambandinu kalli atvinnuleysi yfir þjóðirnar. Það er flókin samfélagsgerð, fjölbreyttari vinnumarkaður sem skapar atvinnuleysið. Þess vegna skiptir svo miklu máli að hafa í grunngerðinni, í vinnumarkaðssamstarfinu milli aðila vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfingarinnar, þennan sveigjanleika. Þar verð ég að hrósa aðilum vinnumarkaðarins alveg óskaplega mikið. Þeir hafa tekist á við hvern vanda á fætur öðrum sem hafa komið með nútímavæðingu íslensks samfélags og leyst hann með glimrandi hætti. Ég held að hægt sé að segja að það hvernig aðilar vinnumarkaðarins tóku á starfsmannaleigum og málefnum erlends verkafólks á góðærisárunum sé algerlega til fyrirmyndar og hafi gert gríðarlega mikið fyrir íslenskt samfélag, stuðlað að auðveldari aðlögun þessa fólks, komið í veg fyrir neikvæð áhrif af þeim mikla fjölda útlendinga sem hingað komu og þegar við horfum á tölurnar í dag erum við hlutfallslega með mjög fáa úr þessum hópi á atvinnuleysisskrá miðað við þann fjölda sem hingað kom. Við megum ekki gleyma öllu því góða sem við getum gert en við verðum að takast á við þetta verkefni sjálf af fullri ábyrgð. Þetta er verkefni sem fer ekki frá okkur.

Ég þarf að koma hér með annað frumvarp. Vonandi verður hægt að koma með það eins fljótt og hægt er, kannski í lok febrúar eða byrjun mars, en við þurfum vissulega að læra af reynslunni og við þurfum að koma inn miðað við reynsluna. Ein leið til að flýta fyrir málinu í meðförum félags- og tryggingamálanefndar og greiða fyrir þingstörfum er að ég er að sjálfsögðu tilbúinn að mæta oftar fyrir nefndina og gera grein fyrir frumvörpum á vinnslustigi. Það getur líka hjálpað til.

Hitt er að ef við ætlum að vinna svona, hafa lýðræðislega umfjöllun á Alþingi Íslendinga um þessi erfiðu mál eftir því sem þeim vindur fram, þá verðum við auðvitað að geta lært af reynslunni og verið með hlutina þokkalega opna fram á síðustu stund. Ég held því að það gæti verið ein leið, að við mundum einfaldlega hafa fleiri fundi um einstök mál þar sem ég gæti mætt með sérfræðingum fyrir nefndina og gert grein fyrir einstökum málum eftir því sem þeim vindur fram þannig að við tryggjum að nefndin sé upplýst og við virðum þingið því það er grundvallaratriði að þingið sé lykilleikandi í þessari atburðarás allri.