138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[23:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir ágætisræðu sem ég hlustaði á af mikilli athygli. En það sem varð kannski til þess að ég kem upp í andsvar er það sem hann byrjaði ræðu sína á, að við hefðum eytt allt of miklum tíma í umræðu um svokallað Icesave-mál. Mig langar þá að árétta það hér að margsinnis var boðið upp á það af hálfu stjórnarandstöðunnar að ef hæstv. ríkisstjórn hefði einhver frumvörp sem hún teldi að lægi á að koma á dagskrá voru menn alveg tilbúnir til að hliðra þar til.

Eins vil ég minna á það, virðulegi forseti, að ég benti á það í fjárlaganefnd þegar málið var rifið þaðan út án þess að ræða það að þá væri verið að færa umræðuna inn í þingsal sem væri ekki skynsamlegt, svo því sé til haga haldið.

Ég tók reyndar eftir mörgu en það er eitt sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um sem hann kom inn á í ræðu sinni, að sömu ráðuneytin verði fyrir miklu álagi og hann benti á að það gæti verið minna álag í öðrum ráðuneytum og hugsanlega mætti færa verkefni þar á milli. Mér fannst þetta dálítið athyglisverður punktur hjá hæstv. ráðherra. Telur hæstv. ráðherra að það sé möguleiki á því að færa ákveðin verkefni eða færa ákveðið starfsfólk á milli ráðuneyta til að létta af, því að þetta er að sjálfsögðu mjög skynsamlegt ef þetta er hægt. Reyndar er margt fagfólk í öllum ráðuneytum sem getur leyst ákveðin verkefni, en mér fannst þetta dálítið athyglisvert hjá hæstv. ráðherra þegar hann benti á að það væri hægt að gera þessar breytingar. Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji möguleika á að gera meira af þessu en gert hefur verið, því að lítið verið hefur gert af því eða nánast ekkert.

Síðan kom hæstv. ráðherra inn á það að hann hefði ekki miklar áhyggjur af umsögn Sambands sveitarfélaga en hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir benti á það áðan að það væri metið svo að þetta væru u.þ.b. 370 millj. kr. sem það þýddi í kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hann einhver áform um að taka upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga um að leiðrétta þennan mun sem verður, þ.e. þann kostnað sem fellur á sveitarfélögin vegna þessa frumvarps?