138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

störf lögreglunnar og ummæli heilbrigðisráðherra.

[10:32]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Starf lögreglunnar á Íslandi er án efa eitt það vandasamasta í þessu þjóðfélagi og ég hygg að sjaldan hafi starf lögreglumanna verið erfiðara en á þessu ári þar sem hér urðu atburðir sem leiddu til mikilla mótmæla og álag á lögreglumenn og löggæsluna alla var gríðarlega mikið við þær aðstæður. Lögreglan hefur nokkuð haft áhyggjur af því hvert viðhorf stjórnvalda til lögreglunnar er og skemmst er að minnast skoðana hæstv. heilbrigðisráðherra og afstöðu hennar gagnvart löggæslunni og þeim atburðum sem urðu í janúar. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tjáð sig töluvert um framgöngu lögreglunnar og meðan hún var enn þá óbreyttur þingmaður leit hún á aðgerðir lögreglunnar til að verja og halda uppi öryggi í landinu sem hefndaraðgerðir.

Nú er hæstv. dómsmálaráðherra æðsti yfirmaður löggæslu í landinu og það væri fróðlegt að fá að vita afstöðu hæstv. dómsmálaráðherra til þessara orða hæstv. heilbrigðisráðherra. Telur hæstv. dómsmálaráðherra löggæsluna njóta óskoraðs stuðnings ráðherra í ríkisstjórn Íslands? Telur hæstv. dómsmálaráðherra þessi ummæli og þær skoðanir sem uppi hafa verið í ríkisstjórn Íslands gagnvart þessari grundvallarstoð í íslensku samfélagi vera réttmætar og hver er skoðun hæstv. dómsmálaráðherra á því viðhorfi sem birtist til löggæslunnar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar?

Mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort hún telji að ástæða sé til að bregðast við þeim viðhorfum sem fram hafa komið af hálfu hæstv. ráðherra.