138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

stuðningur við fyrirhugað gagnaver.

[10:46]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég get svo sannarlega komið upp og varið mig. Mér þykir hálfógeðfellt hvernig hv. þingmaður talar um siðferðileg mörk vegna þess að það sem þetta mál snýst um er mjög einfalt. Þetta snýst um að fyrir hrun árið 2007 var til fyrirtæki, dótturfélag nokkurra erlendra aðila í erlendri eigu, sem ætlaði að stofna gagnaver. Hið opinbera fór strax í viðræður við eigendurna til að ryðja þessari fjárfestingu braut. Nú hefur það gerst í millitíðinni að hrun varð á íslenskum bankamarkaði, en einstaklingar sem eiga þarna hlut að máli, minni hluta í fyrirtækinu, virðulegi forseti, eru enn inni.

Það sem þetta verkefni snýst um er einfaldlega að núna stöndum við frammi fyrir þeirri ákvörðun: Ætlum við að láta alla fjárfestinguna fara forgörðum út af fortíð og sögu eins minnihlutaeiganda í þessu fyrirtæki (Gripið fram í.) eða, virðulegi forseti, ætlum við að stuðla að því að nýtt fjármagn geti komið inn í þetta verkefni og þessi aðili sem hér um ræðir verði þynntur út með því nýja fjármagni eins og kemur fram í frumvarpinu?

Mér þykir ógeðfellt hvernig þingmenn reyna að gera þetta mál tortryggilegt. Hér er um gríðarlega mikið og stórt hagsmunamál að ræða, bæði fyrir Suðurnesjabúa og landið allt. Við þurfum fyrst og fremst að ryðja braut nýju fjármagni inn í þetta verkefni til að þynna út þennan gamla eiganda sem er minnihlutaeigandi í verkefninu. (Gripið fram í.) Ég spyr mig um annarlegar hvatir þegar menn koma með svona málflutning hingað inn. (Gripið fram í.)