138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur o.fl.

226. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Við fjöllum hér um mikilvægt mál sem snýr að þeim áformum ríkisstjórnarinnar að gera landið að einu skattumdæmi. Þetta mál kom nokkuð seint fram og í vinnslu nefndarinnar kom fram að mjög takmarkað samráð hafði verið haft við starfsmenn á skattstofum vítt og breitt um landið. Í þessu samhengi ber líka á það að líta að nú er verið að ganga frá einum mestu breytingum á íslenska skattkerfinu á síðari árum, breytingum sem eru unnar á gríðarlega miklum hraða. Við í efnahags- og skattanefnd fengum málið til umræðu þegar einir 14 eða 15 virkir dagar voru til áramóta og þá voru umfangsmiklar breytingar á fjórum lagaköflum er snerta skattkerfið undir, þ.e. lagafrumvörp um nýsköpun, um auknar skatttekjur ríkissjóðs, um virðisaukaskatt og síðan skatta fyrirtækja og heimila.

Þegar menn ráðast í slíkar grundvallarbreytingar með svo stuttum fyrirvara sem raun ber vitni kallar það á hörð viðbrögð okkar í minni hlutanum hér á Alþingi. Hér er verið að mæla fyrir því að breyta íslensku skattkerfi og íslensku samfélagi í grundvallaratriðum og slíkt gerir Alþingi ekki á nokkrum virkum dögum, slíkt er ekki sæmandi Alþingi Íslendinga og slíkt er ekki íslenskum almenningi bjóðandi. Í þessu samhengi ræðum við þær miklu breytingar sem gera á á skattumdæmunum, þ.e. að fækka þeim í einungis eitt þegar þessar viðamiklu breytingar eru að ganga yfir.

Ég hefði viljað sjá að farið yrði betur ofan í þessi mál, meira samráð haft við starfsmenn skattsins vítt og breitt um landið og að við sem störfum hér á Alþingi fengjum að sjá hver framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar er hvað snertir störf í þessum geira atvinnulífsins og þá kannski ekki hvað síst störf sem nú eru unnin á landsbyggðinni. Þetta liggur ekki fyrir og ég hef lagt til að þessu máli verði ýtt til hliðar, vísað aftur til ríkisstjórnarinnar til frekari meðhöndlunar þannig að við hefðum fyrir framan okkur skýr markmið og sýn á það hvert ríkisstjórnin ætlar að stefna í þessum efnum.

Það er til að mynda mikil óvissa um það hver framtíð starfa í Vestmannaeyjum, á Ísafirði og á Siglufirði verður ef frumvarpið verður gert að lögum. Með hliðsjón af því að við höfum lagt fram þingsályktunartillögu á undangengnum árum, þingmenn, um byggðaáætlun sem hefur hljómað mjög vel en síðan hefur framkvæmdarvaldinu verið falið að ýta þeim metnaðarfullu áformum úr vör — miðað við það hvernig farið hefur verið með þær byggðaáætlanir sem alþingismenn hafa samþykkt til þessa þá er ég ekki bjartsýnn á að staðinn verði dyggur vörður um störf á þessum stöðum og ég hef miklar áhyggjur af því. Opinberum störfum á þessum stöðum sem ég hef nefnt hér, Vestmannaeyjum, Ísafirði og Siglufirði, hefur fækkað gríðarlega á undangengnum árum, mikilvægum störfum, kjölfesta í héraði, og það er þess vegna sem við framsóknarmenn höfum lagst gegn því í sérstöku nefndaráliti frá minni hluta efnahags- og skattanefndar sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins skrifa einnig undir, Pétur H. Blöndal og Tryggvi Þór Herbertsson.

Við erum með breytingartillögu við þetta mál þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þar sem færð hafa verið fyrir því gild rök að ekki sé hægt að fallast á slíka framkvæmd, án þess að fjármálaráðherra vandi betur til verka, samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Fram undan er atkvæðagreiðsla um þetta mál þar sem við munum greiða atkvæði um það hvort þessi verknaður ríkisstjórnarinnar verður að veruleika. Ég hlakka til þess og bind mikla vonir við það að í þeirri atkvæðagreiðslu fylgi þingmenn sannfæringu sinni eins og þeir eiga að gera í flestum málum. Það verður fróðlegt að sjá hvað þeir þingmenn sem kjörnir hafa verið á Alþingi munu gera í þessu máli því að allir stjórnmálaflokkar töluðu fyrir því í aðdraganda síðustu kosninga að nú væri kominn tími til að snúa vörn í sókn á landsbyggðinni og þar átti ekki hvað síst að standa vörð um opinberu störfin. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig meiri hlutinn hér á þingi mun bregðast við þessari tillögu okkar í minni hlutanum, um að þessu máli verði vísað frá, það verði tekið til endurskoðunar og við fáum að sjá skýrari markmið og sýn á það hverjar áætlanir stjórnvalda eru. Með þessu frumvarpi er ríkisskattstjóra, þeim ágæta manni, og öðrum embættismönnum falið mikið vald um það hvernig þróun opinberra starfa verður hér á landi á næstu árum, þ.e. um staðsetningu þeirra.

Ég vil minna á það, frú forseti, að í aðdraganda síðustu kosninga töluðu ríkisstjórnarflokkarnir fyrir því að nú skyldi fara fram víðtækt samráð í sem flestum málum. Nú eru þeir tímar að við þurfum á samstöðu og samvinnu að halda í þjóðfélaginu og við eigum að vanda til verka þegar kemur að mikilvægum málum líkt og því máli sem við ræðum hér, að samvinna og samráð séu höfð við úrlausn þessara mála.

Það var ekkert leitað til stjórnarandstöðunnar, frú forseti, þegar kom að þessu máli, ekki fyrr en málið lá fyrir í lokaútgáfu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þannig er nú verklagið hér inni að við fáum frumvörpin fullbúin, við fáum ekkert að koma að ákvörðunum á fyrri stigum málsins. Það er kannski þess vegna sem fólk sér Alþingi Íslendinga eins og það er í dag. Í ljósi samráðsleysins er ræðustóll Alþingis eini vettvangur okkar í minni hlutanum til að reyna að hafa áhrif á framgang mála. Það er kannski þess vegna, í ljósi samráðsleysisins, sem umræður geta oft orðið mun lengri en efni standa til ef annað verklag yrði viðhaft í mikilvægum málum. Það verður fróðlegt að sjá hvort meiri hlutinn muni taka undir með okkur í minni hlutanum hér á þingi um að þessu vanreifaða máli verði vísað aftur í hina ágætu ríkisstjórn til frekari úrlausnar.

Ég sé að hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir, sem er einn af uppáhaldsráðherrum mínum í ríkisstjórninni, hlustar með mikilli einbeitni á þessa ræðu en það verður fróðlegt að sjá hvort ríkisstjórnin muni — þegar og ef við náum að fella það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram — hlusta á starfsfólkið á skattstofunum, á sjónarmið þeirra byggðarlaga sem hér eiga í hlut og mikilvægt er að við stöndum vörð um. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að það var Vinstri hreyfingin – grænt framboð sem talaði um að verja hin opinberu störf. Nú er þetta allt í fullkominni óvissu, án samráðs við viðkomandi starfsmenn.

Við mótmælum þessu harðlega í minni hlutanum á þingi og þetta er þvert á það sem rætt var í aðdraganda síðustu kosninga. Nú er tími til kominn, frú forseti, að stjórnvöld fari að efna það sem þau lofuðu. Nú sé ég að hæstv. forseti hvetur mig til þess að flýta máli mínu en við erum að ræða mikilvægt mál. Til þess að greiða fyrir störfum þingsins ætla ég að ljúka ræðu minni en vek athygli á því að hér er einungis um 2. umr. málsins að ræða og getur vel verið að við þurfum að ræða þetta mál frekar á hv. Alþingi.