138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur o.fl.

226. mál
[14:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál. Vegna anna við þinglokin og nefndarfunda ýmissa átti ég ekki kost á því að mæla fyrir nefndaráliti hv. efnahags- og skattanefndar, en það mál sem við fjöllum hér um lýtur að einföldun á þeirri starfsemi sem annast um skattinnheimtuna fyrir okkur í landinu, sameiningu skattumdæmanna í eitt og verkaskiptingu þar á milli sem miðar fyrst og fremst að því að hagræða í ríkisrekstrinum og bæta og efla um leið þjónustu án þess þó að það eigi að leiða til uppsagna á fastráðnu starfsfólki.

Þessar breytingar ber að með fremur skömmum fyrirvara og þær eiga að taka gildi mjög fljótlega. Í umfjöllun efnahags- og skattanefndar kölluðum við m.a. til fulltrúa frá þeim stéttarfélögum sem mesta aðkomu eiga að málinu og fengum þar góðar upplýsingar um að samráð við þá aðila væri með ágætum og að þeir treysti á það að þó skammur tími sé til stefnu verði unnið að málinu í góðri samvinnu og sátt við samtök starfsmanna og farið að öllum þeim leikreglum sem við leggjum áherslu á. Við teljum þess vegna fært að mæla með því að ráðast í þessar breytingar enda mikilvægt að nota tækifærið nú og gera ýmsar breytingar í ríkisrekstrinum sem miða að því að auka skilvirkni, einfalda, sameina og spara í rekstrinum og mikilvægt að það ráðuneyti og sá málaflokkur sem á að fara fyrir einmitt í því, sjálft fjármálaráðuneytið, beiti sér fyrir aðgerðum á þessu sviði og sé þannig öðrum ráðuneytum til fordæmis um það með hvaða hætti megi ráðast í og ná fram árangri í sameiningu, í hagræðingu og aukinni skilvirkni í ríkisrekstrinum.