138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[16:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Aftur upplifum við það að ríkisstjórnin brýtur blað í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtök eins og Öryrkjabandalagið, eldri borgara, Samband íslenskra sveitarfélaga og Sjálfsbjörg.

Í umsögn Alþýðusambandsins segir m.a.:

„Atvinnuleysistryggingar eru einn af hornsteinum réttindakerfis launafólks. Atvinnuleysistryggingum var upphaflega komið á fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar […] Enda ljóst að hagsmunir launafólks eru miklir og kostnaðurinn við kerfið greiddur af því og fyrirtækjunum í landinu.“ — Um þetta hefur verið mikil sátt, en í umsögn Alþýðusambandsins segir enn fremur: „Af þessari braut var vikið við undirbúning breytinganna nú.“

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að málsmeðferðin brjóti í bága við samning sambandsins við félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra frá 30. desember 2005 og við samning sem sömu aðilar undirrituðu núna 1. október 2009. Það er ekki fyrr þornað blekið á þeim samningi við Samband íslenskra sveitarfélaga (Forseti hringir.) en hæstv. ríkisstjórn er búin að brjóta hann. (Forseti hringir.) Við svona vinnubrögð er ekki hægt að una. Við segjum nei.