138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil gera að umræðuefni grein sem birtist fyrir stuttu í blaðinu New York Times eftir hagfræðiprófessorinn Gregory Mankiw. Var þeirrar greinar reyndar líka getið fyrir nokkrum dögum í Morgunblaðinu. Greinin er áhugaverð fyrir okkur Íslendinga, í henni eru gerð skil rannsóknum sem hafa farið fram við m.a. Harvard-háskólann og af Bacconi og innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og víðar þar sem kenningar um það hvort betra sé að örva hagkerfið með því að auka ríkisútgjöld eða lækka skatta verði kannaðar. Eitt af því sem kemur fram í stórri rannsókn sem gerð var á 21 ríki innan OECD og rúmlega 90 tilfellum þar sem ríkisstjórnir beittu ríkisfjármálunum til að örva hagkerfið þar sem hægt var að skipta þeim aðgerðum í tvennt, annars vegar skattalækkanir og hins vegar aukningu ríkisútgjalda, kemur í ljós að í þeim tilvikum þar sem skattar voru lækkaðir mátti búast við því að hagkerfið tæki kipp. Í þeim tilvikum þar sem ríkisútgjöldin voru hækkuð gerðist hins vegar ekkert slíkt. Þetta var stór rannsókn sem náði aftur til ársins 1971.

Nú er það svo, frú forseti, að við förum að ræða skattamál á næstu dögum. Ef ríkisstjórnin hefur sitt fram í þessu máli munum við Íslendingar fara þá leið að draga úr ríkisútgjöldum og hækka skatta við þær aðstæður þar sem samdráttur er í hagkerfinu vegna hruns á fjármálamarkaði.

Frú forseti. Ég kalla mjög eftir því að við lyftum okkur úr pólitískum hjólförum og reynum að ræða þetta mál, ekki á flokksbasa heldur reynum að finna þá lausn sem best er og þá hvet ég hv. þingmenn til að kynna sér (Forseti hringir.) þær tillögur sem við sjálfstæðismenn höfum sett fram vegna þess að þær snúa að því að leysa vanda ríkissjóðs án þess að þurfa að hækka skatta. Það skiptir miklu máli. (Forseti hringir.)