138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrstur til að taka til máls undir þessum dagskrárlið var hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Hann fór yfir álit gesta á fundi heilbrigðisnefndar nú í morgun. Gestirnir voru kallaðir til vegna tilflutnings hjúkrunarrýma frá heilbrigðisráðuneytinu til félagsmálaráðuneytis sem birtist í fjárlögum næsta árs.

Það sem kom fram á þeim fundi endurspeglar, að mínu mati, viðhorf mjög margra, m.a. að mjög mikilvægt sé að málefni aldraðra falli sem mest undir eitt ráðuneyti og draga eigi úr stofnanavæðingu og að nú þegar þurfi að efla þjónustu sem er utan stofnanaþjónustunnar og auka fjölbreytni í þjónustu við aldraða.

Fram komu miklar efasemdir um að við værum að stíga rétt skref í dag, að færa hjúkrunarheimilin yfir til félagsmálaráðuneytisins. Einnig komu fram efasemdir um að rétt væri að færa þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna nema að undirbúa það mjög vel. Þess var getið að aldraðir leita fyrst og fremst eftir öryggi í þjónustu, svo sem ef þeir verða fyrir byltum og áföllum, en gera ekki sjálfir kröfu um faglega þjónustu. Hjúkrunarheimilin veita í dag fyrst (Forseti hringir.) og fremst hjúkrunarþjónustu og læknismeðferð vegna þyngra vistunarmats, fólk er orðið hrumara og meira (Forseti hringir.) veikburða en það var áður.