138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

ríkisútgjöld og skattar -- heilbrigðisþjónusta -- vinnulag á þingi -- fjárlagagerð -- styrkir ESB.

[11:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Þór Saari og Birgi Ármannssyni um að við þurfum að vanda betur vinnubrögðin. Eins vil ég nefna að það kom fram í vegvísi frá hæstv. ríkisstjórn að þær skattbreytingar og þau skattafrumvörp sem eru lögð fram í haust, eða núna, kæmu í síðasta lagi fram 15. nóvember. Þau voru hins vegar lögð fram 7. desember sem segir kannski allt sem segja þarf um málið.

Síðan vil ég líka koma inn á það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og Þuríður Backman ræddu áðan. Staðreyndin í málinu er sú, virðulegi forseti, að núna stendur til að færa hjúkrunarheimilin frá heilbrigðisráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið. Þetta eru millifærslur milli ráðuneyta upp á 20 milljarða kr. án þess að fram hafi farið fagleg umræða í fagnefndinni sjálfri, hv. heilbrigðisnefnd. Það segir kannski nokkuð um það hvernig menn vinna þessa vinnu. Það er mjög bagalegt. Auðvitað hefði verið mun skynsamlegra að hv. heilbrigðisnefnd hefði fjallað um færslu þessa málaflokks á milli ráðuneyta. Það eru hin eðlilegu vinnubrögð í málunum vegna þess að í hv. heilbrigðisnefnd situr fólk með sérþekkingu, eins og sérstaklega hv. þm. Þuríður Backman sem stýrir nefndinni. Hún hefur mikla þekkingu á þessu sviði.

Hins vegar lögðum við sjálfstæðismenn fram breytingartillögur við 2. umr. sem við drógum til baka. Við munum að sjálfsögðu endurflytja þær um að þessi málaflokkur verð fluttur aftur til heilbrigðisráðuneytisins, eða hætt við þennan flutning, og síðan muni menn gefa sér eitt ár til að gera það að öðru leyti.

Út af ummælum hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur áðan um að sjálfstæðismenn séu að blekkja kjósendur minni ég á og bendi hv. þingmanni á að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögur um hvernig mætti skera enn frekar niður í ríkisútgjöldum og það mundi minnka hallann á ríkissjóði um 26 milljarða kr. Við leggjum líka fram 8 milljarða kr. aukningu (Forseti hringir.) í niðurskurði þannig að við erum mjög ábyrgir í þessu máli.