138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[11:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir innlegg hans í þessa umræðu. Hann fór yfir það nákvæmlega að menn voru að smíða — það er ekki auðvelt og ekki einfalt og þess vegna tók það þennan langa tíma og menn voru komnir á lokametrana. Það er gert til að vernda þá sem minnst hafa, láglaunafólkið og þá sem eru veikir. Út á það gengur það og maður mundi ætla að það yrði góð pólitísk samstaða á þingi, það er í það minnsta mjög góð pólitísk samstaða milli t.d. verkalýðshreyfingarinnar, sjúklingasamtaka og heilbrigðisstarfsmanna. Eins og ég segi, ég hef ekki heyrt einn einasta aðila segja að hann vilji ekki sjá þá hugmyndafræði sem upp var lagt með.

Hv. þingmaður vann baki brotnu að þessu og þetta var hans hjartans mál. Ég vildi nota tækifærið og spyrja hv. þingmann eins. Nú eru allir sammála í orði um að í þessum stóru verkefnum sem við erum í núna verði þingmenn að vinna saman og ég held að að öðrum ólöstuðum sé ekki hægt að finna einstakling sem er búinn að setja sig betur inn í þessi mál en hv. þm. Pétur H. Blöndal, enda vann hann í þessu í hartnær tvö ár og var kominn langt á veg. Ég spyr hv. þingmann hvort ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn, þá annaðhvort sá hæstv. heilbrigðisráðherra sem nú er eða sá sem var á undan, hafi eitthvað kallað eftir liðsinni hans eða sjónarmiðum hvað þetta varðar. Ef eitthvert mál ætti að vinnast þvert á flokka er það þetta. Það væri gott að vita, ég geri ráð fyrir að hann hafi verið kallaður til út af þessu máli en mig langar að heyra hvernig það gekk fyrir sig.