138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[11:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Allir sem komu til viðræðu, og það var mikið samstarf haft við sjúklingasamtök og starfsmenn heilbrigðisstofnana o.s.frv., voru jákvæðir fyrir þessa breytingu. Það sem kannski var mest um vert var að þá yrði greinilegt hvað menn væru að borga og af hverju menn fengju þennan afslátt eða ekki. Þetta kæmi aðallega langveikum til góða, þeim sem eru mikið veikir en þeir sem eru mjög stutt veikir yrðu þá að borga að fullu, þeir sem eru veikir kannski einu sinni á þriggja ára bili. Það var mikil jákvæðni.

Hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra hafði ekki formlega samband við mig en núverandi heilbrigðisráðherra hefur spjallað við mig á göngum og er jákvæður, að ég held, fyrir að taka þetta verkefni upp. Ég bíð eftir því í ofvæni að hann finni tíma og rúm til að taka starfið upp og ég hugsa að það liggi það mikið fyrir af gögnum núna að jafnvel megi fara hratt og vel í þetta.