138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[11:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við eigum að líta bara á björtu hliðarnar í þessu. Auðvitað kemur á óvart að þessir hæstv. ráðherrar hafi ekki kallað hv. þingmann til skrafs og ráðagerða hvað þetta varðar því að eins og margoft hefur komið fram er þetta mál þvert á flokka og ætti að vera takmark okkar allra að ná niðurstöðu í þessa hluti.

Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, við skulum gefa hæstv. núverandi ráðherra heilbrigðismála tækifæri. Ég ætla ekki hæstv. heilbrigðisráðherra neitt annað en að vilja vinna áfram að þessu máli. Auðvitað munum við veita honum allt það liðsinni sem við mögulega getum. Ég tel að gerð hafi verið mörg mistök, bæði stór og smá, hjá núverandi ríkisstjórn hvað varðar samvinnu á milli þingmanna. Icesave-málið er gott dæmi um það. Það hefði verið miklu betra ef menn hefðu strax kallað saman alla flokka að því máli, ég tala nú ekki um áður en var skrifað undir júnísamkomulagið og ég tala nú ekki um þegar við erum að ganga frá þessu máli núna. Það verður mikið óheillaspor fyrir þjóðina að sú leið var ekki farin.

Það sama á auðvitað við í skattamálunum, ríkisfjármálunum og að sjálfsögðu í heilbrigðismálunum. Þetta er einn þáttur hvað það varðar sem er algerlega rakinn, að við eigum að kalla allt það besta fólk með bestu þekkinguna að málinu, óháð því í hvaða flokki það er. Í þessu tilfelli, eins og kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, er hann búinn að vinna mjög mikið að þessu, býr yfir gríðarlegri þekkingu, hélt opna fundi til að kynna þetta þegar hann vann að þessu á vegum heilbrigðisráðuneytisins á sínum tíma og ég vonast til þess að hæstv. ráðherra muni nýta hann í framtíðinni.