138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir.

259. mál
[11:30]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði á þingskjali 295, mál nr. 259.

Gildandi lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði voru sett árið 2003 í kjölfar örrar þróunar og breytinga á verðbréfamarkaði og fólu þau í sér töluverðar breytingar fyrir starfandi verðbréfasjóði. Jafnframt voru innleiddar með lögunum breytingar sem gerðar höfðu verið á Evróputilskipun um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum sem er að stofni til frá 1985.

Starfsheimildir verðbréfasjóða takmarkast við að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Við setningu gildandi laga var gildissvið þeirra víkkað nokkuð þannig að lögin tækju einnig til stofnunar og reksturs fjárfestingarsjóða.

Meginmunurinn á fjárfestingarsjóðum og verðbréfasjóðum felst í því að ekki er heimilt að markaðssetja fjárfestingarsjóði á Evrópska efnahagssvæðinu án starfsleyfis í viðkomandi ríki auk þess sem fjárfestingarheimildir þeirra eru rýmri en verðbréfasjóða.

Tilgangur þessa frumvarps er að skýra og afmarka nánar það regluverk sem gildir um starfsemi sjóða um sameiginlega fjárfestingu auk þess að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 16/2007, um breytingar á tilskipun um sameiginlega fjárfestingu, svokallaðri UCITS-tilskipun. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi gildandi lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, nr. 30/2003.

En víkjum þá að helstu nýmælum frumvarpsins. Þær meginbreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru:

Í fyrsta lagi er lagt til að heiti laganna verði „lög um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði“. Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að gildissvið laganna nái einnig til fagfjárfestasjóða en þar með taka lögin til allra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.

Í öðru lagi er lagt til að skilyrði fyrir afturköllun á heimild rekstrarfélags til reksturs verðbréfa- eða fjárfestingarsjóðs verði rýmkuð. Fyrir hefur Fjármálaeftirlitið nokkrar heimildir til að grípa til afturköllunar en rýmkun þessara skilyrða leiðir til þess að Fjármálaeftirlitið getur fyrr gripið inn í starfsemi ef tilefni er til.

Í þriðja lagi er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að kveða í reglugerð á um afmörkun á fjárfestingarstefnu verðbréfasjóðs sem og upplýsingagjöf til viðskiptavina um hana. Ákvæðinu er m.a. ætlað að koma í veg fyrir að sjóðir lýsi fjárfestingarstefnu sinni á þann veg að þeim sé heimilt að fjárfesta allt frá 0% og upp í 100% í tilteknum eignaflokki, en slíkt verður að teljast ófullnægjandi upplýsingagjöf og nánast merkingarlaust. Með því að upplýsa viðskiptavininn um fjárfestingarstefnu sjóðs og samsetningu hans felst því mikilvægt aðhald gagnvart verðbréfasjóðum til þess að haga fjárfestingum sínum í samræmi við þá stefnu sem þeir hafa sett sér og upplýst um.

Í fjórða lagi er lagt til að framkvæmdastjóri rekstrarfélags og sjóðstjórar skuli hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum eða hlotið löggildingu til verðbréfaviðskipta. Jafnframt er lagt til að gerðar verði auknar kröfur til óhæfis stjórnarmanna rekstrarfélaga. Þá er lagt til að gerðar verði strangari kröfur við útvistun verkefna rekstrarfélags.

Í fimmta lagi er lagt til að sett séu ákveðin hámörk við fjárfestingum í fjármálagerningum tengdra aðila.

Í sjötta lagi er lagt til að sérákvæði verði sett um peningamarkaðssjóði og tekinn af allur vafi um að þeir teljist til verðbréfasjóða. Fyrir haustið 2008, áður en peningamarkaðssjóðirnir voru leystir upp, töldust þeir flestir til fjárfestingarsjóða en lagt er til að eftirleiðis muni þeir falla í flokk verðbréfasjóða og þannig lúta þeim reglum sem um þá gilda sem felst m.a. í takmarkaðri fjárfestingarheimildum en ella.

Í sjöunda lagi er lagt til að viðskiptavinum, þ.e. eigendum hlutdeildarskírteina, verði veittur aukinn aðgangur að upplýsingum um starfsemi sjóðanna. Í því felst að upplýsingar verði veittar um tíu stærstu útgefendur í eignasafni viðkomandi sjóðs auk upplýsinga um hlutfall fjárfestingar í fjármálagerningum hvers aðila, nafn- og raunávöxtun síðustu þriggja reikningsára. Lagt er til að umræddar upplýsingar verði uppfærðar reglulega.

Í áttunda lagi er lagt til að fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða verði þrengdar nokkuð frá því sem nú er. Þá er lagt til að lögfest verði lágmarkseftirlit með fagfjárfestasjóðum og mælt fyrir um skráningu þeirra. Um er að ræða sjóði um sameiginlega fjárfestingu sem, eins og nafnið bendir til, fjárfesta fyrir hönd fagfjárfesta og er almenningi reyndar óheimilt að fjárfesta í slíkum sjóðum. Samkvæmt núgildandi reglum lúta fagfjárfestasjóðir ekki skipulögðu eftirliti.

Að síðustu er lagt til að Fjármálaeftirlitið fái aukin eftirlitsúrræði og auknar heimildir til þess að beita stjórnvaldssektum sé ekki farið að ákvæðum laganna.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. viðskiptanefndar til umfjöllunar.