138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[11:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Herra forseti. Um leið og ég lýsi yfir stuðningi mínum við þetta mál vil ég líka segja að það er mjög mikilvægt að farið verði í aðgerðir til að koma í veg fyrir að námsmenn verði í stórum stíl framfærslulausir á sumrin. Ég tek hins vegar undir það meginsjónarmið að námsmenn eiga að sækja framfærslu sína til námsmannakerfisins eða til vinnumarkaðarins en ekki til Atvinnuleysistryggingasjóðs í námshléum.

Svo er líka mikilvæg forsenda stuðnings míns að í meðförum nefndarinnar var ákvæðum breytt þannig að eftir breytingar lenda ekki þessar miklu fjárhæðir á sveitarfélögunum eins og aðrir hv. þingmenn halda að frumvarpið feli í sér. Því hefur verið breytt.

Önnur mikilvæg forsenda stuðnings míns er að með þessu er auðvitað verið að skapa svigrúm til að fara í viðamiklar vinnumarkaðsaðgerðir (Forseti hringir.) fyrir ungt fólk, upp á 750 millj. kr. er gert ráð fyrir í fylgigögnum þessa frumvarps, (Forseti hringir.) og það er forsenda þess að ég styð málið.