138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[12:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum framhaldsnefndarálit frá hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd m.a. vegna þess að ég lagði fram við 2. umr. breytingartillögu sem var að hluta til tekin inn í framhaldsnefndarálitið. Ástæðan fyrir fyrirvara mínum er sú að ég tel að ganga hefði mátt aðeins lengra og skýra málið betur. Þetta snýst sem sagt um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, eftirlit víða um land með annars vegar kjötvinnslum og hins vegar mjólkurstöðvum. Hér er aðeins tekið tillit til þeirrar tillögu sem ég var með, um að mögulegt væri að í hinum dreifðu byggðum væri óljóst um þessar mundir hvort skynsamlegt væri að færa eftirlitið alfarið yfir til ríkisins, til Matvælastofnunar, frá heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaga, þar sem það gæti háttað svo til í hinum dreifðu byggðum að skynsamlegra væri að hafa eftirlitið hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga eins og það hefur verið hingað til.

Ástæðan fyrir því að ég legg þetta til og tekið er tillit til þess í nefndarálitinu er m.a. vegna þess að Ísland er mjög dreifbýlt eins og við þekkjum og þar af leiðandi þarf oft um langan veg að fara. Erfitt getur verið að fá fagmenn til starfa á landsbyggðinni og það getur verið skynsamlegt að nýta þá sem fyrir eru jafnvel þó að þeir starfi hjá sveitarfélögunum en ekki hjá ríkisvaldinu. Þessi tilskipun Evrópusambandsins er þannig til komin að við erum að taka upp matvælaeftirlit Evrópusambandsins og ég hefði talið að við þyrftum ekki að ganga eins þrælslega áfram í því eins og meiri hluti nefndarinnar og stjórnvöld hafa lagt til. Máli mínu til stuðnings hef ég bent á að í ríkjum Evrópusambandsins sjálfs er matvælaeftirlit gjarnan með líkum hætti og er á Íslandi í dag en samkvæmt Evróputilskipuninni virðumst við vera kaþólskari en páfinn þegar við göngum til verks og virðumst því miður vera það í ansi mörgum Evróputilskipunum og tökum þá lítið tillit til íslenskra aðstæðna.

Ég mun engu að síður greiða atkvæði með frumvarpinu þegar það kemur til atkvæðagreiðslu því að í heild sinni eru þar margir og mikilvægir þættir mjög jákvæðir fyrir Ísland, ekki síst sjávarútveginn og annan útflutning, en ég hefði kosið að menn horfðu betur á íslenskar aðstæður og að skapa eftirlitinu á Íslandi eðlilegar aðstæður og tækju þá mið af raunverulegum aðstæðum þeirra sem búa á Íslandi en ekki í miðri Evrópu.