138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[12:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Þetta mál, um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samningsins og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins um matvæli, kemur hér til 3. umr. Málið, eða sérstaklega einstök og ákveðin atriði þess, hefur í sjálfu sér verið eitt af stærri málum þingsins og þjóðarinnar á undanförnum árum. Þegar gengið var í Evrópska efnahagssvæðið var kveðið á um að Ísland væri undanþegið ákveðnum þáttum þess sem giltu innan þessa innri markaðar, þar á meðal fengum við undanþágu hvað varðaði innflutning á lifandi dýrum, innflutning á hráu kjöti og kjötvörum. Sá samningur og sú undanþága var reyndar sett til ársins 2000 en þá skyldi hún endurskoðuð en í sjálfu sér ekki endilega sjálfkrafa felld niður.

Reyndin varð síðan sú í samskiptum innan Evrópska efnahagssvæðisins að þessi fyrirvari var felldur þar niður, hinn almenni fyrirvari, en einungis haldið inni fyrirvaranum um bann við innflutningi á lifandi dýrum. Um þetta hefur síðan verið mikið rætt hér og eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson kom inn á hefur það líklega komið fyrir Alþingi í fjögur skipti og um það hefur ríkt mikill skoðanamunur einmitt hvað varðaði óheftan innflutning á hráu ófrosnu kjöti og kjötvörum.

Það er því mjög ánægjulegt hversu góð samstaða hefur nú náðst milli allra þingflokka, það ég best veit, alla vega innan hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, um afgreiðslu þessa máls þar sem sett er inn, á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, á grundvelli heimildar þar, áframhaldandi bann við óheftum innflutningi á hráu, ófrosnu kjöti og kjötvörum og ýmsu öðru sem kveðið er á um í frumvarpinu.

Það er mjög ánægjulegt að svo góð samstaða hafi náðst um þetta mál. Ég get tekið undir orð hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar og hv. þm. og fyrrverandi ráðherra, Einars Kristins Guðfinnssonar, um að ýmsa þætti í þessu frumvarpi hefðum við ekki viljað innleiða í sjálfu sér en það eru líka margir aðrir þættir sem eru sjálfsagðir og eðlilegir og við mundum hafa innleitt hvort sem við hefðum verið að innleiða einhverja evrópska tilskipun eða ekki, þetta er bara um þróun í meðferð matvæla. Því til viðbótar erum við aðilar að samningi við Evrópska efnahagssvæðið sem lýtur einmitt að útflutningi fiskafurða, þannig að það er mjög nauðsynlegt að þarna sé samræmd lagaumgjörð. Það er líka ýmislegt í framkvæmdaþættinum hér innan lands í þessu eins og hv. þingmenn minntust báðir á varðandi dýralækna og eftirlits- og skoðunarstofur og annað því um líkt. Ég tek undir það að við þurfum að huga vel að því að íslenskir hagsmunir og þeir hagsmunir dreifbýlisins að halda uppi öflugri og góðri þjónustu verði í fyrirrúmi og lögunum beitt í þá veru.

Ég ætla ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég vil að lokum taka undir og árétta þakkir til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar fyrir mjög góða vinnu og vandaða. Ég vil þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Atla Gíslasyni, og öllum þeim sem voru í nefndinni, hagsmunaaðilum og þeim fjölda aðila sem komið hafa að því að búa þetta mál til lokameðferðar. Ég vil þakka þeim fyrir mjög vandaða og góða vinnu. Ég veit að allir sem í nefndinni hafa starfað hafa lagt mikið á sig til þess að komast að sem bestu sameiginlegum markmiðum. Frumvarpið sem fer þá til atkvæðagreiðslu í lok 3. umr. er góður ávöxtur þeirrar vinnu. Ég fagna þeirri stöðu sem málið er í og hef það lokaorð mín.