138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[12:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi kolefnislosunargjöld eða skatta á jarðefnaeldsneyti munu þau gjöld sem stjórnvöld eru nú að taka upp að sjálfsögðu renna inn í og verða hluti af framtíðarfyrirkomulagi þessara mála hvernig sem það allt saman verður og er nú akkúrat verið að takast m.a. á um þá hluti austan Atlantshafsins í kóngsins Kaupmannahöfn. Það liggur nokkuð fyrir, t.d. hvað varðar losun stóriðjufyrirtækjanna hér munu þau verða hluti af samevrópskum markaði um losunarheimildir og þurfa að greiða gjöld í samræmi við það.

Hv. þingmaður nefnir hins vegar réttilega orkuþátturinn sem er betur fer ekki mengandi í þessum skilningi og það mun koma okkur til góða. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er eitt af því sem þarf að hafa í huga þegar við verðleggjum orku okkar á komandi árum. Á aðra hliðina styrkir þetta að sjálfsögðu samkeppnisstöðu landsins augljóslega en á hina hliðina ætlum við ekki að láta arðinn sem myndast þannig í sjálfu sér eða auðlindarentuna ganga okkur úr greipum. Þess vegna þarf að stíga nú mjög varlega til jarðar í öllum frekari samningum um orkuverð og/eða skattamál slíkra fyrirtækja því að tíminn vinnur með okkur alveg augljóslega. Við sitjum á vaxandi gullnámu, ef svo má að orði komast, þar sem eru orkuauðlindirnar og þurfum að gæta okkar vel að binda ekki þær auðlindir á óhagstæðum og of lágum verðum til langs tíma. Það væri enn heimskulegra við núverandi aðstæður og það sem við blasir heldur en það hefur verið á undangengnum árum, hafa menn þó ekki staðið sig vel í þeim efnum, samanber það þegar menn fóru um lönd og álfur og auglýstu Ísland sérstaklega upp, að þar væri lægsta orkuverð í Evrópu.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi að öðru leyti (Forseti hringir.) held ég að ég verði að fá að reyna að svara því í seinna andsvari mínu.