138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[14:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Þór Saari) (Hr):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar vegna frumvarps til laga um umhverfis- og auðlindaskatta. Mér fyndist mjög æskilegt, frú forseti, ef hæstv. fjármálaráðherra gæti verið hér, ekki eingöngu sem fjármálaráðherra heldur einnig sem formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs því að með frumvarpinu er að mörgu leyti verið að ganga þvert gegn því sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð stendur fyrir.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að innheimtur verið skattur af sölu á raforku og heitu vatni auk skatts af tilgreindum flokkum af fljótandi jarðefnaeldsneyti. Tilgangurinn er að afla aukinna tekna fyrir ríkissjóð sem nemur 4,7 milljörðum kr. 2. minni hluti er fylgjandi kolefnis- og umhverfissköttum og auðlindagjöldum. Hann gerir hins vegar tillögur um heppilegri framkvæmd við skattlagninguna.“

Í fyrsta lagi er hér um ranga notkun á hugtökum að ræða. 2. minni hluti setur fram alvarlegar athugasemdir við þá þversögn að nefna skattheimtuna „auðlindaskatta“ eins og lagt er til í frumvarpinu. Í frumvarpinu hefur verið lagt til að innheimta skattinn af notendum í stað þess að skattleggja auðlindina sjálfa. Það er athyglisvert að það er enginn þingmaður Vinstri grænna hér í salnum, frú forseti, en þetta frumvarp snýst einmitt um auðlindir og umhverfismál. Þeir eru kannski ekki meira sammála þessu frumvarpi en svo að þeir treysta sér ekki til að heyra það sem sagt er í því. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ég held áfram lesningu minni:

„Því meira sem 2. minni hluti hefur skoðað málið styrkist sú von að um misskilning á hugtökum sé að ræða af hálfu frumvarpshöfunda, en ekki beina pólitíska ákvörðun um að leggja skattinn á almenning í stað auðlindarinnar. Þversögnin er að kalla skatt af notkun almennings „auðlindaskatt“. Auðlindarentan er ekki skattlögð með frumvarpinu, eins og venja er þegar talað er um auðlindaskatta. Ef það væri raunverulega ætlunin ætti 1. mgr. 5. gr. frv. að orðast svo: „Greiða skal í ríkissjóð sérstakan skatt af virkjaðri raforku og unnu heitu vatni eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.““

Í öðru lagi er þetta orkuskattur en ekki auðlindaskattur. 2. minni hluti hefur talað fyrir upptöku auðlindaskatts í sjávarútveginum, þ.e. að það verði lagt gjald á úthlutaðar aflaheimildir. Undir þau sjónarmið hafa fjölmargir þingmenn Samfylkingarinnar tekið og jafnframt hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagt fram frumvarp þar að lútandi um gjald á skötusel.

Frú forseti. Ef ríkisstjórnin ætlaði að beita sömu aðferð við innheimtu auðlindaskatts af fiskveiðiauðlindinni og gert er með þessu frumvarpi, yrðu fiskflök og fiskbollur í borðum kjörbúða skattlögð en ekki aflaheimildirnar. Ég veit ekki til þess að nokkrum manni hefði dottið slík aðferð í hug.

Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að ýmsar leiðir hefðu verið skoðaðar af framkvæmdarvaldinu til að innheimta auðlindaskatta af raforku og heitu vatni. Niðurstaðan varð sú að leggja til þá leið að skattleggja notkun almennings á auðlindinni.

Annar minni hluti varar við því að leið ríkisstjórnarinnar að þessu sinni verði í framtíðinni túlkuð sem fordæmi sem væri hægt að vísa til og geti þar með haft áhrif á alla umgjörð lagasetningar um auðlindagjöld. Þetta getur orðið mjög alvarlegt mál, frú forseti.

Í þessu frumvarpi er Vinstri hreyfingin – grænt framboð að vernda stóriðjuna. Það virðist vera pólitísk ákvörðun að undanskilja raforkufyrirtækin frá þessum skatti. Nefna má mörg dæmi um mikla notkun sem ekki verður skattlögð samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar, t.d. vegna raforkuframleiðslu á háhitasvæðum þar sem 88% af auðlindinni sem tekin er upp úr jörðunni og notuð er við raforkuvinnslu úr heitu vatni fer til spillis. Einungis 12% af jarðvarmanum nýtast til raforkuvinnslunnar. Niðurstaðan er að enginn hvati verður hjá orkufyrirtækjunum til að nýta auðlindina betur eða þróa tækni til þess og undirbúa slíkar framkvæmdir með hliðsjón af betri nýtingu.

Við umfjöllun í nefndinni kom fram að Norðmenn hafi verið með tvenns konar útgáfu af auðlindaskatti. Annars vegar það sem leggst á hverja kílóvattstund og hins vegar upphæð sem leggst á hverja virkjun eftir ákveðinn árafjölda. Jafnframt kom fram að ef farið væri að skattleggja orkufyrirtækin beint yrði nærri þeim gengið þar sem stærstur hluti þeirra er til stóriðju. Vegna stóriðjusamninga væri orkufyrirtækjunum ekki heimilt að breyta verði á seldri orku og samningarnir um söluverðið giltu til áratuga.

Annar minni hluti hefur einnig bent á að stóriðjan er með orkukaupasamninga til langs tíma en það sama gildir til dæmis um útgerðina, sem telur sig vera með — og virðulegur forseti, hér er villa í nefndarálitinu sem er náttúrlega eins og margt annað þessa dagana unnið af miklum hraða af mjög hæfu starfsfólki nefndasviðs — að hér á að standa „að vera með aflaheimildir til óendanlegrar framtíðar“. Samt eru menn að ræða ýmsar útfærslur til að takast á við þá stöðu mála.

Annar minni hluti hefur einnig bent á hversu gagnrýnisvert er að það er ekki minnst einu orði á þetta í áliti meiri hlutans.

Undir fyrirsögninni „Pólitísk ákvörðun undanskilur gasnoktun álvera frá þessum skatti“ benti 2. minni hluti jafnframt á það við vinnslu málsins að kolefnisgjald ætti aðeins að innheimta af fljótandi jarðefnaeldsneyti. Þannig verða undanskildir stærstu gasnotendur á Íslandi, sem ekki eru grillandi sjálfstæðismenn á kvöldin og á daginn vegna þess að ekki er hægt að græða neitt lengur, heldur eru það álverin sem eru stærstu (Gripið fram í.) gasnotendur sem eru undanþegin. Álverin fá reglulega, með nokkurra mánaða millibili, stór tankskip full af gasi til landsins. Gasið er nýtt til að halda áli bráðnu meðan það er í vinnsluferli. Um er að ræða gríðarlegt magn af gasi sem er brennt upp við álframleiðsluna og það hefur einfaldlega verið tekin upplýst ákvörðun um það að þessi brennsla beri ekki kolefnisgjald. Af því leiðir að það er ákveðinn vandræðagangur í 1. gr. frumvarpsins þar sem þarf að telja upp hvaða tegundir af kolefnisorkuberum á að skattleggja.

Annar minni hluti lét bóka við meðferð málsins í efnahags- og skattanefnd eftirfarandi bókun, með leyfi forseta:

„Það er alveg skýrt, miðað við alla eðlilega hugtakanotkun á auðlindagjöldum og rentu, að hér er ekki um auðlindagjald að ræða heldur eitthvað allt annað.“

Hér eru tillögur 2. minni hluta um heppilegri leiðir. Á vettvangi fjárlaganefndar hefur fulltrúi Hreyfingarinnar lagt til leiðir til að afla ríkinu aukinna tekna á sviði umhverfis- og auðlindamála. Í fyrsta lagi að tekinn verði upp raforkuskattur af raforkusölu til stóriðju í stað sérstaks skatts af allri seldri raforku. Gjald þetta verði 1 kr. á kílóvattstund af seldri raforku frá auðlindinni sjálfri. Miðað við tölur Orkustofnunar um raforkusölu til stóriðju gæti gjaldið skilað tekjum upp á 12,4 milljarða kr. á ári.

Í öðru lagi hefur 2. minni hluti lagt til að tekið verði upp auðlindagjald á úthlutaðar aflaheimildir til fiskveiða. Gjald þetta verði að meðaltali 50 kr. á úthlutað kíló. Miðað við úthlutaðar aflaheimildir árið 2008, sem voru um 553.600 tonn, gæti þetta gjald hugsanlega skilað tekjum upp á ríflega 27 milljarða kr.

Frú forseti. Það er miklu vænlegra og auðveldara að leggja á auðlindagjöld með þessum hætti heldur en að setja aflaheimildir á fiskbollurnar í kjörbúðunum og það er í rauninni ekkert vit í því.

Í þriðja lagi er lagt til að tekið verði upp gistináttagjald sem leggist á hótel- og gistihúsarekstur. Gjald þetta verði 500 kr. á gistinótt. Miðað við gistinætur ársins 2008, samanber skýrslur Hagstofu, gæti þetta gjald skilað tekjum upp á um 1,3 milljarða kr. á ári. Lagt er til að dregið verði úr fyrirhuguðum hækkunum tekjuskatts til samræmis við þetta.

Frú forseti. Ég vek aftur athygli á því að í umhverfismálum virðist Hreyfingin okkar vera komin fram fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í umhverfismálum. Þau hafa tekið aftursætið hjá Vinstri grænum, að einhverju leyti vegna samstarfs við Samfylkinguna, en að einhverju leyti vegna þess einfaldlega að það virðist ekki hafa unnist tími til að vinna frumvörpin og málin nægilega vel. Það er hér í þessu frumvarpi einfaldlega um að ræða mjög alvarlega hugtakamisnotkun, það er eins og fólk annaðhvort skilji ekki hugtökin eða noti vísvitandi röng hugtök við lagasetningu. Það er einfaldlega óboðlegt fyrir löggjafarvaldið að hegða sér með þessum hætti.

Niðurstaðan er, frú forseti, að 2. minni hluti mælist til þess að málið verði sett fram með réttum hætti og að bætt verði úr göllum þess áður en Alþingi samþykkir lög í þessa veru.

Í ljósi þessa leggur 2. minni hluti til að Alþingi aðhafist ekki frekar í málinu að svo stöddu og því verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

a. vegna rangrar notkunar á hugtökum í frumvarpi ríkisstjórnarinnar,

b. vegna tilrauna til að leggja orkuskatt á notkun almennings í stað þess að taka raunverulega rentu af auðlindinni sjálfri,

c. vegna verndunar á stóriðju, bæði raforkuvera og álvera, þar sem hvorki er minnst á auðlindarentu né gas,

— vegna þessa sé ekki hægt að fallast á slíka framkvæmd og er mælst til þess að Alþingi samþykki að vísa málinu frá og taki fyrir næsta mál á dagskrá.

Frú forseti. Hér er einfaldlega um að ræða mál sem er að mörgu leyti mjög gott, en er samt meingallað. Hugmyndirnar á bak við það eru allar góðra gjalda verðar, það að það þurfi á þessum tímum að leggja á umhverfis- og auðlindagjöld og það þurfi að skattleggja kolefnisútblástur og það þurfi að leggja á notkunargjald af auðlindum þjóðarinnar — sjálfur er ég innilega sammála því, en það verður hins vegar að gera það á réttum forsendum og með réttum hætti. Það er ekki verið að gera það í þessu frumvarpi. Þess vegna legg ég einfaldlega til að því verði vísað frá og það verði unnið betur og komi hér inn miklu vandaðra en í þessu tilviki.