138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir ummæli hv. þm. Þórs Saaris í garð okkar alþingismanna er ég ekki kominn hér upp til að grilla. Ég ætla að vekja athygli á því að efnislega eru hv. þm. Þór Saari og ég eða við sjálfstæðismenn algerlega sammála um helstu ágallana á þessu frumvarpi. Þrátt fyrir að okkur greini mjög á hugmyndafræðilega hvort fara eigi út í skattlagningu á auðlindum og umhverfi föllumst við í faðma með það að þetta er ekki rétt aðferðafræði sem notuð er hér, það er hreinlega blekking að kalla þetta auðlindaskatta. Það eru einfaldlega skattar á neyslu heimila og fyrirtækja á orku og kolvetni.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann af því að hann kemur fram með ákaflega athyglisverða tillögu um það hvernig afla megi ríkissjóði 27,7 milljarða kr. tekna á ári með því skattleggja úthlutaðar aflaheimildir. Hv. þingmaður tekur dæmi af úthlutuðum aflaheimildum ársins 2008 sem voru 553.600 tonn og það gæti skilað þessum tekjum, þetta væri þá að meðaltali 50 kr. auðlindagjald á úthlutað kíló. Nú er það svo að stærsti hlutinn af þessum 553 þúsund tonnum eru uppsjávartegundir þar sem meðalverðið er kannski 10 kr. Finnst hv. þingmanni (Forseti hringir.) að við eigum að leggja á auðlindagjald sem nemur u.þ.b. fimmföldu aflaverðmæti í þessum tegundum?