138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi mat á það hvort hér sé verið að hækka skatta meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu var það ekki sérstaklega skoðað í meðförum nefndarinnar, því miður, en náttúrlega leiðir af sjálfu sér að kostnaður, m.a. í samgöngum, er oft meiri á landsbyggðinni, sérstaklega ef fólk þarf að aka langar vegalengdir til vinnu. Þetta hefur hins vegar ekki verið skoðað.

Varðandi endurgreiðslur til íbúa á köldum svæðum vegna húshitunar sem hv. þingmaður kom inn á var það ekkert sérstaklega rætt ef kostnaður þeirra heimila verður mun hærri en þessar rúmu 30 millj. kr., hvort það muni skila sér til þeirra. Þetta er mjög áhugaverður punktur í umræðunni. Hæstv. fjármálaráðherra var hér rétt áðan og ég held að það væri mjög áhugavert ef hv. þingmaður innti hæstv. ráðherra eftir þessu og fengi það staðfest í umræðunni hvort fólk á köldum svæðum sem þarf að hita húsnæði sitt án þess að vera með hitaveitu muni fá þennan skaða bættan ef hann verður meiri. Ég er í raun og veru í miklu áfalli yfir þeim tölum sem hv. þingmaður kom fram með. Við vitum að hækkun á raforku á köldum svæðum hefur verið um 20% síðasta árið og ef það á að lækka niðurgreiðslur til þessara svæða um 120 millj. kr. til viðbótar verður það enn erfiðara. Í dag er 336% dýrara að kynda húsið sitt á þessum landsvæðum, og hver verður munurinn þá eftir þetta? Hvert stefnum við ef það fer að verða fjór- eða fimmfalt dýrara að hita húsið sitt bara vegna þess að maður kýs sér búsetu á svæði sem hefur því miður ekki hitaveitu? Það þarf að jafna aðstæður fólksins í landinu, en hér er verið að breikka bilið og það er svo sannarlega ekki í anda þess sem margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa talað fyrir á undangengnum árum.