138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[15:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það vill svo til að ég ræð sjálfur mínum ferðum hingað í ræðustólinn en ekki hv. þm. Árni Johnsen fyrir mig. Það hvarflar reyndar stundum að mér að ýmsir séu farnir að gleyma því í þjóðfélaginu, og sem betur fer má segja, að hér varð eitt stykki hrun. Sennilega er það í og með vegna þess að okkur er að ganga núna, sérstaklega á síðari hluta þessa árs, að mörgu leyti miklu betur að vinna úr þessum erfiðleikum en menn óttuðust að það er dálítið farið að gleymast að hér hafi orðið eitt stykki hrun.

Það er náttúrlega einn hópur í þessu landi sem aldrei á að gleyma því sem gerðist á Íslandi haustið 2008 og það er Sjálfstæðisflokkurinn, það eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þetta hrun varð alveg sérstaklega á ábyrgð og í boði þess flokks. Það þýðir ekki að koma hér upp og tala um aðgerðir sem eru bráðnauðsynlega tengdar því að takast á við erfiðleikana sem hrunið skilur eftir sig og láta eins og ekkert hafi gerst.