138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[16:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram og sérstaklega vil ég þakka hv. síðasta ræðumanni, Einari K. Guðfinnssyni, sem fór mjög rækilega yfir málið frá öllum sjónarhornum og vakti athygli á því helsta sem fram hefur komið í umsögnum umsagnaraðila og held ég að fáu hafi þar verið sleppt.

Til að byrja með held ég að einfaldast sé að tala um þetta mál á þessum forsendum. Það er mikið rangnefni að kalla það umhverfis- og auðlindaskattafrumvarp. Þetta eru auðvitað bara hreinar nýjar álögur á atvinnustarfsemi og landsbyggð. Þetta eru, eins og við höfum kallað það hér í umræðunni, sturtuskattar á heita vatnið. Heimilin eiga að borga 85 milljónir í sturtuskatt, stóriðjan mun skila 1.600 milljónum, landbúnaðurinn 15 og iðnaður, þjónusta og annað um 185 milljónum eins og frumvarpið var kynnt í upphafi. Þetta eru þau áform sem ríkisstjórnin lagði af stað með í þessu máli.

Þegar maður skoðar þær fjölmörgu umsagnir sem hafa borist, jafnvel þótt umsagnarfrestur hafi verið skammur, er athyglisvert hve áform ríkisstjórnarinnar eru afhjúpuð auðveldlega með einföldum dæmum um áhrif frumvarpsins fyrir einstaka aðila sem munu þurfa að taka á sig þessar auknu byrðar hvort sem er í landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði eða annars staðar. Mig langar til að grípa niður, virðulegi forseti, í nýútkominni skýrslu frá Viðskiptaráði Íslands þar sem er verið að fjalla um þessar misráðnu leiðir í skattamálum sem ríkisstjórnin er að fara. Þar segir á bls. 24, með leyfi forseta:

„Í stað þess að skera niður óhagkvæm fitulög sem safnast hafa upp í rekstri hins opinbera á undanförnum árum hafa stjórnvöld frekar kosið að leggja byrðarnar á heimili og fyrirtæki með stóraukinni tekjuöflun. Auk þess virðast stjórnvöld hafa litið fram hjá þeim margvíslegu áhrifum á hvata og umsvif í hagkerfinu sem fyrirhugaðar skattbreytingar koma til með að skapa.“

Síðan segir annars staðar, með leyfi forseta:

„Svo virðist sem stjórnvöld geri sér ekki fyllilega grein fyrir þeim gjörbreyttu aðstæðum sem íslenskt viðskiptalíf býr við í kjölfar þeirrar fjármála- og gjaldeyriskreppu sem nú stendur yfir. Hrun krónunnar, viðvarandi verðbólga og háir stýrivextir hafa lagt efnahagsreikninga stórs hluta viðskiptalífsins í rúst. Á sama tíma hafa rekstraraðstæður hríðversnað sem sést best á þeirri staðreynd að einkaneysla hefur dregist saman um nærri 30% frá því hámarki hennar var náð árið 2007 og fjárfesting einkaaðila hefur hrunið um ríflega 60% á sama tíma. Það er því erfitt að sjá hvernig stjórnvöld geta komist að þeirri niðurstöðu að frekari skattlagning á atvinnurekstur sé vænleg leið til árangurs.“

Loks segir á öðrum stað, með leyfi forseta, í framhaldi af umræðu um aðra skatta sem mótmælt er í skýrslunni, á bls. 29:

„Til viðbótar við hækkun tryggingagjalds ætla stjórnvöld að leggja sértæka skatta á orkunotkun og kolefnislosun.“ — Og það er auðvitað það mál sem við erum hér að ræða um. — „Þessari skattlagningu er því einkum beint að ákveðnum greinum atvinnulífsins. Orkuskattar lenda aðallega á stóriðju og iðnaði en þeir sem bera mestar byrðar vegna kolefnisgjalds eru samgöngufyrirtæki og sjávarútvegur. Eitt af því sem talið er einkenna hagkvæmt skattkerfi er að skattlagning hafi ekki áhrif á samkeppnisumhverfi. Þá er bæði átt við innbyrðis samkeppnisstöðu innlendra atvinnugreina sem og stöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum samkeppnisaðilum. Orku- og kolefnisskattar leggjast með ólíkum hætti á atvinnugreinar í landinu auk þess sem þær draga úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Það er því ljóst að þessi skattlagning gengur gegn fyrrnefndum markmiðum.“

Þetta vildi ég hafa upp úr nýútkominni skýrslu Viðskiptaráðs Íslands þar sem fjallað er annars vegar um þetta heildarsamhengi hlutanna og hins vegar um áhrifin af þessum nýju gjöldum.

Mér finnst það hafa komið ágætlega fram í umræðunni í dag að í reynd er ekki verið að leggja á neins konar auðlindaskatt í hefðbundnum skilningi þess orðs með frumvarpinu. Ef hér væri um umhverfisskatta að ræða sem ættu sér stoð í einhverri umhverfisstefnu stjórnvalda fyndist mér líklegra að menn væru að leggja upp með skattlagningu sem ætti ekki einungis að hafa takmarkaðan gildistíma. Auðvitað er það ekki svo, þetta er úrræði sem gripið er til vegna þröngrar stöðu í ríkisfjármálum og ríkisstjórnin hefur valið að fara þessa leið vegna þess að hún hefur ekki komið auga á neinar aðrar og hún hefur ekki haft kjark til að skoða aðrar leiðir sem bent hefur verið á. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að fara yfir það, það er svo margrætt á þinginu að aðrar leiðir eru færar, málflutningur okkar hefur gengið út á það á þinginu í allt haust að forða atvinnugreinunum frá óþarfa skattlagningu á þessum erfiða tíma.

Ég er hér með þykkan bunka af umsögnum og þó tók ég einungis brot af því sem þinginu barst frá umsagnaraðilum þar sem er verið að gagnrýna þessi áform út frá ýmsum hliðum. Til dæmis er athyglisvert að grípa niður í umsögn Orkustofnunar sem er kannski meira að gagnrýna formið og nálgunina en nokkuð annað og er í sjálfu sér ekkert að blanda sér inn í neina pólitík. Þar er t.d. vakin athygli á því sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom aðeins inn á áðan, að skattlagningin á heita vatnið leggst á í öfugu hlutfalli við verðmæti auðlindarinnar og dregið fram, sem hv. þingmaður kom kannski ekki nægilega vel inn á í sínu máli og ég vildi bæta hér við, að við komum til móts við þá sem þurfa t.d. heitt vatn til húshitunar með sérstökum öðrum ráðstöfunum annars staðar í lagasafninu og þessi löggjöf vinnur beinlínis á móti öðrum úrræðum sem ætlað er að létta undir með þeim sem þetta mál bitnar á. Þarna erum við komin með dæmi um mál þar sem ríkið er bæði að rétta viðkomandi hjálparhönd og leggja á ný gjöld. Þá er hringnum kannski lokað hjá skattaglaðri vinstri stjórn.

Við höfum fengið til okkar í þingið bæði langar greinargerðir og eins líka gröf sem sýna það t.d. fyrir sjávarútveginn hvernig olíukostnaður hefur verið hækkandi hlutfall af heildarútgjöldum sjávarútvegsins. Það sama gildir fyrir þá sem sent hafa inn umsagnir fyrir hönd t.d. Bændasamtakanna og annarra þeirra sem hafa sérstaklega í huga hagsmuni landsbyggðarinnar. Allir þessar aðilar komast að sömu niðurstöðu, þetta bitnar á þeim sem síst skyldi við þær aðstæður sem uppi eru í þjóðfélaginu í dag. Þetta er landsbyggðarskattur, skattur sem leggst á flutningskostnað. Þetta er skattur sem leggst á bændur sem búa við býsna kröpp kjör. Þetta er skattur sem leggst á sjávarútveginn til viðbótar við miklar hækkanir á heimsmarkaðsverði.

Ef við grípum niður í umsögn Samtaka verslunar og þjónustu segir þar um upptöku kolefnisskatts, með leyfi forseta:

„Kolefnisskattur er samkvæmt frumvarpinu lagður á allt jarðefnaeldsneyti, föst krónutala á svartolíu til skipa, á flugvélabensín, þotueldsneyti og á olíu og bensín á bifreiðar og tæki, þar á meðal flutningabíla. Engar opinberar álögur á flutningabíla eru lækkaðar á móti þannig að skatturinn er hrein viðbót við álögur stjórnvalda sem fyrir eru, olíugjald og kílómetragjald, en þau gjöld áætla stjórnvöld að hækka einnig.“

Eins og segir í þessari umsögn er í sjálfu sér enginn eðlismunur á því að taka nokkrar krónur af hverjum lítra í kolefnisgjald eða að taka hann í olíugjald út af fyrir sig. Þetta eru krónur sem leggjast með nákvæmlega jafníþyngjandi hætti á þá sem fyrir gjaldinu verða. Í þessu máli skortir því alla hugmyndafræði, það hefur auðvitað skort allt samráð. Þetta mál er illa undirbúið, það er sett í þann búning að það hljómi eins og að baki því búi mjög rík og öflug nútímaleg hugmyndafræði — umhverfis- og auðlindaskattar, en þegar betur er að gáð er engin umhverfispólitík að baki þessu máli og þetta eru ekki auðlindaskattar þegar vel er skoðað. Þetta er bara enn eitt frumvarpið frá ríkisstjórninni um að hækka gjöld og álögur þar sem hún hefur ekki komið auga á neinar aðrar leiðir til að breikka eða efla skattstofnana og það á er tala um málið á þeim forsendum.

Þetta mál hefur svo sem tekið miklum breytingum frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram vegna þess að þar fóru menn auðvitað algjörlega fram úr sér. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór ágætlega yfir það og bar saman við raunverulegt auðlindagjald sem lagt hefur verið á sjávarútveginn, hvernig staðið var að undirbúningi þess og með hvaða hætti því var síðan á endanum hrint í framkvæmd. Ekki er á neinn hátt hægt að segja að þetta séu sambærileg vinnubrögð eða sambærilegt gjald í nokkrum skilningi.

Ég vil ljúka máli mínu, virðulegi forseti, á því að þakka fyrir góða málefnalega og kröftuga umræðu í dag. Stjórnarandstaðan hefur komið sínum sjónarmiðum á framfæri, umsagnaraðilar hafa komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Hvergi er að finna stuðning við málið í umsögnum á þeirri forsendu að skatturinn sé sanngjarn og eðlilegur. Menn sýna því skilning að ríkið leiti leiða til að stoppa upp í fjárlagagatið eins og til að mynda á við um umsögn ASÍ þar sem menn segja að í ljósi núverandi ástands í ríkisfjármálum geri þeir ekki ágreining um þetta. En það er augljóst að sú skattaframkvæmd sem er verið að bjóða okkur upp á í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar, og þetta er eitt þeirra sem mynda þann skattapakka, er hættuleg og hún er líkleg til þess að dýpka kreppuna, til þess að valda okkur meiri vandræðum en þörf krefur og hún er heldur ekki góður vitnisburður eða gefur okkur a.m.k. ekki góðar væntingar um að samráð og skynsemi muni ráða för í fjárlagagerð og skattaframkvæmd á komandi árum hjá ríkisstjórninni.