138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins fyrst um umhverfisskattana því að sjálfstæðismenn leggja mikla áherslu á að þetta séu hvorki umhverfis- né auðlindaskattar sem hér um ræðir heldur neysluskattar. Auðvitað er það að sínu leyti rétt hvað umhverfissköttunum viðvíkur. Það er eðli málsins samkvæmt vegna þess að hugmyndin með umhverfissköttum er sú að það kosti að menga og að sá sem mengi greiði fyrir það. Þess vegna eru umhverfisskattar í eðli sínu neysluskattar og ekkert rangt við það að kalla þau gjöld sem hér eru lögð á fljótandi eldsneyti því nafni. Þar eru líka þau sjónarmið að slík skattlagning geti haft áhrif á neysluna.

Ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé almennt og yfir höfuð á móti umhverfissköttum, hvort flokkurinn sé almennt og yfir höfuð á móti því að við sem mengum greiðum fyrir það þegar við mengum.