138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[17:25]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hafði áhyggjur af ferðaþjónustunni í ræðu sinni, en ég deili ekki þeim áhyggjum með honum. Ég vil þó ítreka að við skattabreytingar þær sem hér eru kynntar af hálfu ríkisstjórnar er ekki verið að leggja neinn sérstakan skatt á ferðaþjónustuna. Hér er fyrst og fremst um almenna skattlagningu að ræða. Ég tel að það hafi verið mikill sigur fyrir þá sem gera sér grein fyrir því mikilvægi sem ferðaþjónustan hefur í þeirri uppbyggingu sem fram undan er að okkur tókst að forða því að sérstakri skattlagningu yrði komið á. Ferðaþjónustan sjálf mun taka ákvörðun um það hvort hér verða sett á komugjöld eða gistináttagjöld og mun ráðstafa þeim fjármunum sjálf til uppbyggingar á innviðum.

Það er alveg ljóst, og þar tek ég undir ræðu hæstv. ráðherra, að ég tel að næsta sumar í íslenskri ferðaþjónustu verði það besta. Þar nýtur ferðaþjónustan umtalsverðs hagstæðs ytra umhverfis, þ.e. gengi krónunnar er henni hagfellt.

Mig langar í þessu sambandi að vitna hér til mbl.is í dag, með leyfi forseta, en þar segir:

„Ísland ferðarinnar virði. Vefur bandaríska dagblaðsins USA today mælir með ferðalögum til Íslands á næsta ári, en á vefnum eru nefnd þau lönd sem vert er að hafa í huga þegar velja á áfangastað á næsta ári. Er tekið fram að Ísland sé ódýr valkostur, enda gengi krónunnar lágt og því ekki dýrt fyrir útlendinga að njóta lífsins á Íslandi. Sem dæmi um ódýra staði er Bláa lónið nefnt til sögunnar, en samkvæmt vef fyrirtækisins kostar 23 evrur að baða sig í lóninu og það þykir útlendingum ekki mikið.“

Þessi staður er nú í kjördæmi hv. þingmanns og hún þekkir vel til hvers konar ferðaþjónusta á sér stað þar. En fyrir okkur Íslendingana er heldur dýrt að fara í Bláa lónið, það kostar rúmlega 4.000 kr., en útlendingunum þykir það ekki dýrt og þar erum við að græða á gengi krónunnar. Þess vegna hefur þessi ferðaþjónusta gríðarlega mikla möguleika á næsta sumri.